Eins og fram hefur komið stefnir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að því að selja hlut í Íslandsbanka í sumar. Fyrir liggur að einkavæðingaráform eru ekki nokkuð sem stuðningsmenn Vinstri grænna aðhyllast. Engu að síður er það svo að Steingrímur, sem er fyrrverandi fjármálaráðherra; hann gegndi því embætti í kjölfar bankahrunsins í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, telur þetta ekki neitt tiltökumál. Nú séu allt aðrar aðstæður uppi, annað regluverk, en það þegar bankahrunið varð árið 2008.
„Ég geri engar athugasemdir við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í fyrsta lagi er það nú þannig að þessi banki kom óvænt í hendur ríkisins sem greiðsla í formi stöðugleikaframlags. Það var engin sérstök stefna að ríkið ætti að eignast Íslandsbanka og þar af leiðandi á það ekki að vera einhver sérstök stefna að ríkið eigi að eiga hann áfram,“ segir Steingrímur í ítarlegu viðtali við Kjarnann.
Og hann vill meina að út frá sjónarhóli Vinstri grænna sé salan í anda stefnu flokksins. „Við höfum ályktað að ríkið eigi að eiga Landsbankann og er það stefna núverandi ríkisstjórnar. Það verður ekki hróflað við eignarhaldinu á Landsbankanum og það er eigendastefna ríkisins. Hún gerir ráð fyrir að Landsbankinn sé í eigu þjóðarinnar en að Íslandsbanki geti verið seldur.“