Leicester tyllir sér á toppinn eftir þægilegan sigur á Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimamenn fagna síðara marki sínu í kvöld.
Heimamenn fagna síðara marki sínu í kvöld. EPA-EFE/Tim Keeton

Leicester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir öruggan 2-0 heimasigur á Chelsea í kvöld. Sigurinn síst of stór en leikmenn Leicester fóru illa með fjölmörg færi í leik kvöldsins.

Miðjumaðurinn Wilfred Ndidi af öllum mönnum kom Leicester yfir strax á sjöttu mínútu leiksins þegar hann klippti boltann með vinstri fæti í stöng og inn úr erfiðu færi eftir „sendingu“ Harvey Barnes.

Barnes ætlaði að skjóta sjálfur en hitti boltann illa sem endaði hjá Ndidi. Sá hugsaði sig ekki tvisvar um og kom Leicester yfir. Var þetta fyrsta mark Ndidi í 16 mánuði. Hafði Barnes fengið knöttinn eftir vel útfærða hornspyrnu.

James Maddison átti svo skot í slá og Jamie Vardy fór illa með gott færi áður en heimamenn komust í 2-0. Þar var að verki Maddison með flottri afgreiðslu eftir frábæra sendingu Marc Albrighton inn fyrir vörn Chelsea þegar tæpar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Varnarleikur Chelsea algjörlega í molum.

Var Maddison að skora þriðja úrvalsdeildarleikinn í röð. Er það í fyrsta skipti sem hann nær því á ferli sínum. Skömmu áður hafði dómari leiksins gefið Chelsea vítaspyrnu en eftir að brotið var skoðað kom í ljós að Jonny Evans – miðvörður Leicester – braut af sér fyrir utan teig og aukaspyrna því dæmd.

Staðan því orðin 2-0 og þannig var hún í hálfleik sem og er flautað var til loka leiksins. Lærisveinar Brendan Rodgers fengu fín færi til að gera út um leikinn en Timo Werner kom knettinum í netið fyrir Chelsea undir lok leiks.

Eftir að markið var skoðað betur kom í ljós að Werner var hársbreidd fyrir innan og því um rangstöðu að ræða.

Lokatölur á King Power-vellinum því 2-0 fyrir Leicester sem er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar. Allavega í sólahring eða þangað til Manchester United mætir Fulham annað kvöld. Chelsea er hins vegar í 8. sæti með aðeins 29 stig, níu stigum minna en topplið Leicester

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira