Enski boltinn

„Stór mistök að fara frá Everton“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni Þór Viðarsson var í fjögur ár hjá Everton.
Bjarni Þór Viðarsson var í fjögur ár hjá Everton. getty/David Rogers

Bjarni Þór Viðarsson segir að það hafi verið mistök hjá sér að fara frá Everton 2008. Hann var í viðtali í leikskrá Everton á dögunum þar sem hann ræddi meðal annars um tíma sinn hjá félaginu og vonbrigðin að hafa ekki náð að spila með félögum sínum úr gullkynslóðinni svokölluðu í A-landsliðinu.

Bjarni var fyrirliði íslenska U-21 árs landsliðsins sem komst á EM 2011. Í því voru leikmenn á borð við Aron Einar Gunnarsson, Gylfa Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson sem áttu seinna eftir að vera í lykilhlutverkum í frábærum árangri A-landsliðsins. Bjarni spilaði hins vegar aðeins einn A-landsleik, gegn Hvíta-Rússlandi 2008.

„Mig dreymdi um að verða fyrirliði gullkynslóðarinnar þegar við þroskuðumst saman. En meiðsli og ýmislegt annað setti strik í reikninginn,“ sagði Bjarni. 

„Ef ég á að vera heiðarlegur var erfitt að horfa upp á félaga sína í U-21 árs landsliðinu í A-landsliðinu. En þessir leikmenn hafa talað um hvað ég gerði fyrir þetta lið og þessa kynslóð. Aron Einar gerði það í ævisögunni sinni. Ég reyni að líta jákvæðum augum á þetta því ég veit að ég átti þátt í að breyta íslenskri fótboltasögu.“

Upp með sér yfir áhuganum

Bjarni var sextán ára þegar hann gekk í raðir Everton 2004. Hafnfirðingurinn var hjá Everton til 2008 og lék einn leik með aðalliði félagsins, gegn AZ Alkmaar í Evrópudeildinni. Félög á borð við Bayern München og Anderlecht höfðu áhuga á Bjarna en hann valdi Everton.

„Þetta er stórt félag á heimsvísu og ég var upp með mér og ánægður ungur drengur,“ sagði Bjarni. „Það var fyrst í stað skrítið að flytja erlendis. Ég var í hálfgerðri „búbblu“ hérna heima og allir voru svo nánir.“

Bjarni fór á lán til Bournemouth 2007 og segir að það hafi gert sér gott.

„Ég þurfti að bæta fullt. Ég var ekki nógu sterkur, þurfti að auka þolið og bæta verri fótinn [þann hægri]. Að spila fyrir Bournemouth, þar sem þú varst látinn vita ef þú stóðst þig ekki, var gott fyrir mig,“ sagði Bjarni.

Rangt að fara til Hollands

Þeir David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, voru ekki sammála um hvert hann ætti að fara á lán 2008. Moyes benti Bjarna á að fara til Motherwell í Skotlandi en hann valdi Twente í Hollandi, þar sem bróðir hans, Arnar Þór, lék. Hann gekk svo endanlega í raðir hollenska félagsins vorið 2008.

„Þjálfarinn og stjórnin hjá Twente voru með áætlun sem leit mjög vel út og hljómaði vel. En það sem þeir lofuðu stóðst ekki,“ sagði Bjarni.

„Það voru mistök að fara frá Bretlandi því hollenski boltinn er allt öðruvísi og það voru stór mistök að fara frá Everton. Ég hélt að það væri réttast að fara til Hollands á lán en svo var ekki.“

Arteta bestur

Bjarni æfði með aðalliði Everton og segir að Mikel Arteta, núverandi stjóri Arsenal, hafi staðið þar upp úr.

„Ég lærði af Mikel Arteta, Lee Carsley og Leon Osman. Hreyfingarnar og tæknin hjá Mikel voru ótrúlegar. Hann var svakalega góður og sá besti sem ég æfði með,“ sagði Bjarni.

Lesa má allt viðtalið við Bjarna með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×