Enski boltinn

Ras­h­ford ekki al­var­lega meiddur og klár í leik morgun­dagsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford meiddist lítillega gegn Liverpool um helgina en er klár í slaginn annað kvöld.
Marcus Rashford meiddist lítillega gegn Liverpool um helgina en er klár í slaginn annað kvöld. EPA-EFE/Laurence Griffiths

Marcus Rashford er ekki alvarlega meiddur og er klár í leik Manchester United gegn Sheffield United annað kvöld. Rashford var tekinn af velli undir lok leiks í  3-2 sigri Man Utd á Liverpool í FA-bikarnum vegna meiðsla í hné.

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man United, staðfesti á vef Man Utd í dag að Rashford væri leikfær fyrir leik helgarinnar. Toppliðið fær þá botnliðið í heimsókn á Old Trafford og var talið að Rashford gæti misst af leiknum vegna meiðslanna.

„Marcus er klár í leikinn, hann var með á æfingu í morgun. Hann varð fyrir óþægindum í hné gegn Liverpool en það virðist allt í lagi núna,“ sagði Solskjær ásamt því að taka fram að myndataka hefði sýnt fram á að ekki væri um neitt alvarlegt að ræða.

Eflaust vill Solskjær fara varlega með hinn 23 ára gamla Rashford en hann var frá í nokkra mánuði á síðasta ári vegna bakmeiðsla. Þá hefur landsliðsmaðurinn borið upp sóknarleik liðsins það sem af er leiktíð ásamt Bruno Fernandes.

Rashford hefur alls skorað sjö mörk og lagt upp önnur átta í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Þá skoraði hann sex mörk í sex leikjum í Meistaradeild Evrópu ásamt því að skora og leggja upp í 3-2 sigri liðsins á Liverpool í FA-bikarnum um liðna helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×