Enski boltinn

Breyttu reglunum eftir um­deilt mark Man City

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ef atvik líkt og þetta kemur aftur upp verður um rangstöðu að ræða.
Ef atvik líkt og þetta kemur aftur upp verður um rangstöðu að ræða. @primevideosport

Enska úrvalsdeildin hefur ákveðið að breyta reglum varðandi rangstöðu eftir umdeilt mark Bernardo Silva í 2-0 sigri Manchester City á Aston Villa þann 20. janúar síðastliðinn.

Markið var mjög umdeilt þar sem Rodri var rangstæður þegar Tyrone Mings tók við boltanum eftir sendingu Manchester City fram völlinn. Vegna þess að Rodri gerði enga tilraun til að ná boltanum þangað til Mings tók við honum ákváðu dómarar leiksins ekki að dæma rangstöðu.

Í kjölfarið vann Rodri boltann af Mings og á endanum fór knötturinn til Silva sem skoraði með góðu skoti. Í kjölfarið lét Dean Smith, þjálfari Villa, dómaratríó leiksins heyra það og fékk á endanum rautt spjald fyrir ummæli sín.

Nú hefur enska úrvalsdeildin ákveðið að breyta reglunum varðandi rangstöðu og munu slík mörk vera dæmd ólögleg héðan í frá. Leikmaðurinn verður þá talinn rangstæður þó svo að hann geri ekki tilraun til að ná knettinum fyrr en eftir að mótherji tekur við honum.

Það róar eflaust ekki Dean Smith en mark Silva kom á 79. mínútu leiksins og í uppbótartíma tvöfaldaði İlkay Gündoğan forystu City með marki af vítapunktinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×