Enski boltinn

Maguire ósáttur: „Dómarinn mun sjá að hann gerði mistök“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atvikið þegar Harry Maguire braut á Aaron Ramsdale, markverði Sheffield United. Anthony Martial skoraði síðan en markið var dæmt af.
Atvikið þegar Harry Maguire braut á Aaron Ramsdale, markverði Sheffield United. Anthony Martial skoraði síðan en markið var dæmt af. getty/Laurence Griffiths

Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, var langt frá því að vera sáttur með dómara leiksins gegn Sheffield United í gær, Peter Bankes.

Maguire sagði að Bankes hefði ranglega dæmt mark af United í fyrri hálfleik og benti að hann hefði leyft marki Sheffield United að standa. 

Hann sagði að Billy Sharp hefði brotið á David de Gea, markverði United, í fyrra marki Sheffield United. Mark Anthonys Martial var aftur á móti dæmt af þar sem Bankes taldi Maguire hafa brotið á Aaron Ramsdale, markverði Sheffield United.

„Þetta er ótrúlegt. Það er ekki spurning að það sem Billy Sharp gerði var meira brot en það sem ég gerði,“ sagði Maguire.

„Ég stökk upp í boltann. Ég held ég hafi ekki snert markvörðinn, hann kemur við bakið á mér, hendurnar á mér eru hvergi nálægt honum. Ég held að dómarinn muni horfa á þetta aftur og sjá að hann gerði mistök,“ bætti Maguire við.

Hann jafnaði í 1-1 með skalla eftir hornspyrnu Alex Telles á 64. mínútu en tíu mínútum síðar skoraði Oliver Burke sigurmark gestanna frá Sheffield.

United hefði getað komist á topp ensku úrvalsdeildarinnar með sigri í gær. Liðið er hins vegar áfram einu stigi á eftir toppliði Manchester City sem á leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×