Loks vann Liverpool leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sadio Mané skoraði eitt marka Liverpool í kvöld.
Sadio Mané skoraði eitt marka Liverpool í kvöld. Tottenham/Getty

Heimamenn fengu sannkallaða draumabyrjun en Heung-Min Son kom þeim yfir strax á þriðju mínútu leiksins. Því miður fyrir hann – og lærisveina José Mourinho – var markið dæmt af þar sem Son var millimetra fyrir innan í aðdraganda marksins.

Það stefndi svo í að staðan yrði markalaus er flautað yrði til hálfleiks en þegar komnar voru fjórar mínútur fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik skoraði Roberto Firmino eftir sendingu Sadio Mané.

Mourinho hefur eflaust látið Hugo Lloris og Eric Dier heyra það í hálfleik en þeir horfðu á boltann rúlla framhjá sér og á Firmino sem gat ekki annað en skorað. Staðan því 1-0 gestunum í vil í hálfleik. Harry Kane fór meiddur af velli í hálfleik og ljóst að sóknarleikur Tottenham yrði stirður í síðari hálfleik.

Síðari hálfleikur var aðeins tveggja mínútna gamall þegar Mané átti skot sem Lloris varði fyrir fætur Trent Alexander-Arnold sem tvöfaldaði forystu gestanna. Pierre-Emile Højbjerg svaraði fyrir Tottenham með þrumufleyg af löngu færi og staðan því orðin 2-1 þegar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Mohamed Salah hélt hann hefði komið Liverpool í 3-1 þegar hann kom knettinum í netið á 56. mínútu en eftir að markið var skorað kom í ljós að boltinn straukst við handlegg Firmino í uppspili Liverpool og markið því dæmt af.

Mané – sem var allt í öllu í kvöld – kom Liverpool hins vegar 3-1 yfir tíu mínútum síðar þegar hann skoraði eftir fyrirgjöf Trent af hægri vængnum. Aftur horfði varnarlína Tottenham á boltann og Mané nýtti sér það.

Ótrúlegt en satt urðu mörkin ekki fleiri og lauk leiknum með 3-1 sigri Liverpool. Þeirra fyrsti á árinu 2021. Liverpool er áfram í 4. sæti deildarinnar en nú með 37 stig, fjórum stigum minna en topplið Manchester City sem á þó leik til góða. Tottenham er í 6. sæti með 33 stig en á leik til góða á liðin fyrir ofan sig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira