Enski boltinn

Níu ára afmæliskaka Dagnýjar bræddi örugglega hjörtu West Ham fólks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir er komin í búning West Ham en til hliðar er afmæliskakan hennar þegar hún var níu ára gömul.
Dagný Brynjarsdóttir er komin í búning West Ham en til hliðar er afmæliskakan hennar þegar hún var níu ára gömul. Twitter/@westhamwomen

Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var kynnt til leiks sem leikmaður West Ham í gærkvöldi og það með sérstökum hætti.

Það má búast við því að Dagný Brynjarsdóttir sé þegar komin í hóp uppáhaldsleikmanna stuðningsmanna West Ham eftir að hafa séð gömlu myndirnar af Dagnýju í gær.

Það er ekki vanalegt að nýir leikmenn félaga séu kynntir til leiks með fullt af gömlum myndum en svo var raunin í gær. Íslenska landsliðskonan mætti til leiks með sterk tengsl við nýja félagið sitt.

Dagný týndi fram fjölda gamalla mynda úr safni sínu þar sem hún sannaði það að hún hafi verið stuðningsmaður West Ham allt frá barnæsku.

Myndin frá níu ára afmælisdegi Dagnýjar, 10. ágúst 2000, hefur örugglega brætt hjörtu stuðningsmanna West Ham.

Það er eitt að sjá gamla mynd af leikmanni í búningi West Ham en það leynir sér ekki að hér sé um mikinn stuðningsmann félagsins að ræða þegar níu ára afmæliskakan er West Ham kaka.

West Ham endaði í níunda sæti í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 1999 til 2000 en Harry Redknapp var þá knattspyrnustjóri félagsins. Liðið vann einnig Intertoto bikarinn eftir sigur á Metz í tveimur úrslitaleikjum.

Frank Lampard skoraði eitt marka liðsins í úrslitaleiknum en meðal annarra leikmanna í þessu unga og spennandi West Ham liði voru Rio Ferdinand, Michael Carrick og Joe Cole sem allir áttu eftir að verða stórstjörnur. Með liðinu léku einnig gömlu refirnir Paolo Di Canio og Stuart Pearce.

Hér fyrir neðan má sjá myndirnar sem Dagný deildi bæði með nýja félaginu sem og fylgjendum sínum á Instagram þegar hún tilkynnti í gær um næsta áfangastað sinn á knattspyrnuferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×