Enski boltinn

Synir Bergkamps og Pochettinos til Watford

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Maurizo Pochettino í leik með varaliði Tottenham.
Maurizo Pochettino í leik með varaliði Tottenham. getty/James Chance

Enska B-deildarliðið Watford hefur fengið syni Dennis Bergkamp og Mauricio Pochettino til sín.

Watford samdi við Maurizio Pochettino í gær og við Mitchell Bergkamp í dag. Maurizio Pochettino er nítján ára argentínskur kantmaður sem kemur frá Tottenham. Faðir hans, Mauricio Pochettino, stýrði Tottenham á árunum 2013-19 en er í dag knattspyrnustjóri Paris Saint-Germain.

Mitchell Bergkamp er 22 ára sóknarmiðjumaður sem mun til að byrja með spila með varaliði Watford. Hann æfði með Arsenal síðasta haust en fékk ekki samning hjá félaginu.

Faðir hans, Dennis Bergkamp, er einn af bestu leikmönnum í sögu Arsenal. Hann lék með liðinu á árunum 1995-2006 og varð þrisvar sinnum enskur meistari og þrisvar sinnum bikarmeistari með því. Stytta af Bergkamp er fyrir utan Emirates, heimavöll Arsenal.

Watford er í 4. sæti ensku B-deildarinnar með 47 stig, aðeins þremur stigum frá 2. sætinu.

Watford tekur á móti QPR í Lundúnaslag á Vicerage Road í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×