Enski boltinn

Skuggalegir menn komu heim til Ferdinands og sögðu honum að skrifa undir samning við United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árið 2005 fékk Rio Ferdinand óvænta heimsókn frá stuðningsmönnum Manchester United.
Árið 2005 fékk Rio Ferdinand óvænta heimsókn frá stuðningsmönnum Manchester United. getty/Neal Simpson

Rio Ferdinand segir að hópur stuðningsmanna Manchester United hafi komið heim til sín 2005 og hvatt sig til að skrifa undir nýjan samning við félagið.

United keypti Ferdinand frá Leeds United 2002. Þremur árum síðar átti hann í viðræðum við United um nýjan samning en þær höfðu dregist talsvert á langinn.

Þá gripu nokkrir stuðningsmenn United til sinna ráða, fóru heim til Ferdinands og biðluðu til hans að skrifa undir nýjan samning.

„Einn daginn var ég heima hjá mér þegar dyrabjöllunni var hringt. Einhver var með höndina yfir myndavélinni svo ég sá ekki hver þetta var,“ sagði Ferdinand við YouTube-rásina FIVE.

„Ég kíkti út og þá voru tíu til fimmtán menn þar í hettupeysum og með lambhúshettur. Ég hélt að þeir væru komnir til að ræna mig. En sem betur fer öskraði bara einn á mig: skrifaðu undir samninginn.“

Þótt Ferdinand hafi verið feginn að mennirnir væru ekki innbrotsþjófar þótt honum hafi fundist óþægilegt að þeir kæmu heim til sín.

Ferdinand tjáði stuðningsmönnunum að hann myndi á endanum skrifa undir nýjan samning við United sem og hann gerði. Ferdinand skrifaði undir fjögurra ára samning við United og lék með liðinu til 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×