Körfubolti

„Arnar var sá fyrsti sem ég hringdi í“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tómas Þórður Hilmarsson hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari með Stjörnunni.
Tómas Þórður Hilmarsson hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari með Stjörnunni. vísir/daníel

Körfuboltamaðurinn Tómas Þórður Hilmarsson er kominn heim eftir dvöl á Spáni. Líklegast er að hann gangi í raðir síns gamla liðs, Stjörnunnar.

Tómas gekk í raðir Aquimisa Carbajosa í spænsku C-deildinni í sumar en stoppið þar var styttra en áætlað var. Hann ákvað að yfirgefa félagið eftir að ljóst var að hann myndi fá færri mínútur eftir komu nýs leikmanns.

„Enginn frá félaginu talaði við mig. Umboðsmaðurinn kom bara á leik hjá mér og sagði að þeir væru að fá annan leikmann. Mér bauðst að vera áfram en í talsvert minna hlutverki,“ sagði Tómas við Vísi í dag. Hann er kominn til Íslands og er byrjaður í sóttkví.

„Við umboðsmaðurinn vorum sammála um að það besta í stöðunni væri að koma okkur eitthvert annað, heim eða annað á Spáni, og við ákváðum um að ég færi heim.“

Tómas er uppalinn hjá Stjörnunni og hefur leikið með liðinu allan sinn feril hér á landi. Hann segir langlíklegast að hann fari aftur til Stjörnunnar.

„En ég er ekki búinn að skrifa undir en ég reikna með að fara þangað,“ sagði Tómas.

„Arnar [Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar] var sá fyrsti sem ég hringdi í eftir að ég fékk þessar fréttir. Ég fékk að vita að hurðin væri alltaf opin þar.“

Ljóst er að sterkt lið Stjörnunnar verður enn sterkara ef Tómas gengur til liðs við það. Á síðasta tímabili var hann með 8,8 stig og 8,2 fráköst að meðaltali í leik. Stjarnan varð þá deildar- og bikarmeistari annað árið í röð.

Hann segist hafa notið þess að spila sem atvinnumaður þótt dvölin á Spáni hafi verið endasleppt.

„Þetta var mjög gaman og það var alls ekki planið að vera að koma heim. Ég fílaði þetta en á sama tíma er erfitt að búa meira og minna í svona útgöngubanni,“ sagði Tómas að lokum.

Stjarnan tapaði fyrir Grindavík í Domino's deildinni í gær, 93-89.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×