Enski boltinn

Fyrrum fyrirliði Man Utd gagnrýnir hugarfar Liverpool liðsins

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Roy Keane.
Roy Keane. vísir/Getty

Roy Keane skilur ekkert í titilvörn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Liverpool tapaði illa fyrir toppliði Manchester City á Anfield í gær og eru nú tíu stigum á eftir City auk þess sem lærisveinar Pep Guardiola eiga einn leik til góða.

Keane var á meðal sérfræðinga í tengslum við stórleik gærdagsins og fór ekki fögrum orðum um meistarana í leikslok.

„Þeir eru mikið í því að búa sér til afsakanir. Mér finnst þeir hafa verið vondir meistarar. Í mínum huga er alltaf það fyrsta sem þú hugsar þegar þú ert búinn að vinna deildina, hvernig getum við gert það aftur?“ segir Keane sem er einn sigursælasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Keane fór fyrir mögnuðu liði Manchester United um árabil og hampaði Englandsmeistaratitlinum sjö sinnum á sínum ferli.

„Ég hef aldrei fundið þetta hugarfar hjá þessu Liverpool liði. Félagið var búið að bíða lengi eftir þessum titli en maður heyrir það ekki á leikmönnum liðsins að þeir vilji gera þetta aftur.“

„Nú eru þeir farnir að tala um að ná topp fjórum. Fólk er alltaf að segja mér að Liverpool sé stórt félag. Þeir lenda í áföllum en þau eru hluti af leiknum. Ég veit að Liverpool vantar tvo varnarmenn en þeir eru með sína bestu sóknarmenn á vellinum.“

„Þeir eru með markvörðinn sinn, þeir eru með landsliðsmenn á miðjunni og eftir leik fer Klopp að tala um kalda fætur hjá markverðinum. Afsakanir á afsakanir ofan. Ef þið haldið þessu áfram þá verða önnur 30 ár í að þið vinnið næsta titil,“ sagði Keane að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×