Enski boltinn

Liverpool hefur grætt oftar en tapað á markaðnum síðustu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp með leikmönnunum Roberto Firmino, Diogo Jota, Fabinho og Andrew Robertson.
 Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp með leikmönnunum Roberto Firmino, Diogo Jota, Fabinho og Andrew Robertson. Getty/Laurence Griffiths

Liverpool hefur ekki eytt miklu í nýja leikmenn síðustu misseri miðað við nágranna þeirra frá Manchester borg og þetta sést vel í fróðlegri úttekt CIES Football Observatory.

Margir eru að velta fyrir sér taktík Liverpool á félagsskiptamarkaðnum í kjölfar þess að spekingum finnst vanta talsvert upp á breidd Liverpool liðsins til að geta haldið í við Manchester liðin tvö.

Það er í það minnsta ljóst að Liverpool er að kosta til miklu minni pening í leikmenn en Manchester City og Manchester United þegar er borið saman það sem félög kaupa og selja af leikmönnum undanfarin fimm ár.

CIES Football Observatory hefur verið að gera upp kaup og sölur félaga undanfarið og setja þau í samhengi við síðustu tímabil.

Í einni af samantektinni hjá CIES þá var settur fram athyglisverður samanburður á þremur liðum ensku úrvalsdeildarinnar í dag eða liðum Manchester City, Manchester United og Liverpool.

Hér fyrir neðan má sjá síðustu fimm tímabil og hversu mikið þessi þrjú félög hafa komið út í plús eða mínus í viðskiptum sínum með leikmenn.

Eins og sjá má í þessari grafík þá hafa Manchester City og Mancheter United eytt miklu meira í leikmenn og þá hafa þau aldrei verið í plús í viðskiptum sínum með leikmenn. City kom eitt tímabil út á sléttu en annars eru þessi bæði félög alltaf í mínus.

Liverpool hefur aftur á móti grætt oftar á leikmannasölum en liðið hefur tapað. Á þremur af síðustu fimm tímabilum þá hefur Liverpool fengið inn meiri pening fyrir sölur á leikmönnum en félagið hefur borgað fyrir nýja leikmenn.

Það er líka gríðarlegur munur á nettóeyðslu þessara þriggja félaga.

Manchester City hefur alls eytt 631 milljón evra meira í keypta leikmenn en félagið hefur fengið fyrir sölu á leikmönnum. Manchester United er ekki langt á eftr með 583 milljónir evra í mínus.

Liverpool hefur aftur á móti bara eytt 129 milljónum evra meira í nýja leikmenn en félagið hefur fengið til baka með því að selja leikmenn í staðinn.

Nú er spurning hvort Jürgen Klopp mæti með þessa samantekt á næsta fund sinn með stjórninni til að pressa á það að fá að eyða í nýja leikmenn næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×