Enski boltinn

Tala mikið um fjarveru Van Dijk en Liverpool saknar kannski Keita jafnmikið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Naby Keita hefur verið mikið meiddur en hann er mikilvægur leikmaður fyrir Liverpool.
Naby Keita hefur verið mikið meiddur en hann er mikilvægur leikmaður fyrir Liverpool. Getty/Andrew Powell/

Tölfræðin hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni öskrar á einn leikmann og hann heitir ekki Virgil van Dijk.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um vandræði Englandsmeistara Liverpool á þessari leiktíð og oftar en ekki er menn í framhaldinu að vísa til meiðsla og fjarvera miðvarðarins Virgil van Dijk. Það er þó kannski miklu frekar sóknin en vörnin sem er í vandræðum.

Það er síðan ekki bara Virgil van Dijk sem hefur misst mikið úr hjá Liverpool í titilvörninni í ensku úrvalsdeildinni. Gíneamaðurinn Naby Keita hefur aðeins spilað 7 af 23 deildarleikjum Liverpool á leiktíðinni eða bara þrjátíu prósent leikja í boði.

Tölfræðin sýnir það svart á hvítu að Liverpool liðið saknar Keita mjög mikið.

Liverpool liðið hefur skorað 3,6 mörk að meðaltali í leik í leikjunum þar sem Naby Keita hefur verið í byrjunarliðinu.

Naby Keita hefur bara byrjað 30 prósent leikja Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni en liðið hefur skorað 25 af 44 mörkum sínum í þeim eða 57 prósent markanna.

Án Keita hefur Liverpool oftast spilað með mun passífari menn á miðjunni og það er aðeins að skila 1,2 mörkum að meðaltali í leik. Þungarokksleikstíll Jürgen Klopp þarf líklegra á meiri rokk og ról að halda inn á miðjunni.

Liverpool hefur náð í 86 prósent stiga í þeim leikjum sem Naby Keita hefur spilað en aðeins 46 prósent stiga eru í húsi í þeim leikjum þar sem Gíneamaðurinn hefur ekki verið til staðar.

Keita hefur ekki verið leikfær í vandræðum Liverpool að undanförnu og því verður aldrei sannað hvað hann hefði gert fyrir liðið í þeim leikjum. Það verður aftur á móti fróðlegt að sjá hvernig gengur þegar hann kemur aftur til baka. Keita er allur að braggast og ætti að koma til baka á næstunni.

Liverpool með Naby Keita í byrjunarliðinu

  • 4-3 sigur á Leeds
  • 2-0 sigur á Chelsea
  • 3-1 sigur á Arsenal
  • 2-7 tap fyrir Aston Villa
  • 3-0 sigur á Leicester
  • 4-0 sigur á Wolves
  • 7-0 sigur á Crystal Palace
  • Samtals: 6 sigrar og 25 mörk í 7 leikjum.

Stig í húsi:

  • Liverpool með Keita: 86% (18 af 21)
  • Liverpool án Keita: 46% (22 af 48)

Mörk skoruð að meðaltali

  • Liverpool með Keita: 3,6 (25 í 7 leikjum)
  • Liverpool án Keita: 1,2 (19 í 16 leikjum)

Nettó

  • Liverpool með Keita: +14 í 7 leikjum
  • Liverpool án Keita: +1 í 16 leikjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×