Erlent

Settir í sex ára bann eftir að hafa þóst sigra E­verest

Atli Ísleifsson skrifar
Fjallgöngumennirnir lögðu fram fölsuð gögn um að hafa sigrað fjallið. Myndin er úr safni.
Fjallgöngumennirnir lögðu fram fölsuð gögn um að hafa sigrað fjallið. Myndin er úr safni. Getty

Nepölsk yfirvöld hafa bannað tveimur indverskum fjallgöngumönnum og leiðangursstjóra þeirra að stunda fjallamennsku í landinu í sex ár. Ákvörðunin kemur í kjölfar rannsóknar þar sem í ljós kom að þau hafi logið því til að hafa klifið Everest, hæsta fjall heims, árið 2016.

BBC segir frá því að nepölsk ferðamálayfirvöld hafi á sínum tíma vottað að Narender Singh Yadav og Seema Rani Goswami hafi sigrað fjallið. 

Hins vegar var ráðist í rannsóknina þegar þeim mistókst að sýna fram á nokkur gögn sem sönnuðu að þau hafist raunverulega komist á topp fjallsins þegar Yadav var tilnefndur til hinna virtu Tenzing Norgay verðlauna. Aðrir fjallagarpar fóru þá að draga afrek þeirra Yadav og Goswami í efa.

Yadav og Goswami hafa enn ekki tjáð sig um málið, en talsmaður ferðamálaráðuneytis Nepals segir í samtali við AFP að eftir að hafa rætt við aðra fjallgöngumenn hafi komið í ljós að þau hafi aldrei komist alla leið á toppinn og ekki sýnt fram á myndir eða önnur gögn sem sönnuðu slíkt. „Við rannsókn okkar komumst við að því að þau höfðu sent inn fölsuð gögn, þar á meðal ljósmyndir.“

Ferðamálamálayfirvöld hafa sömuleiðis sektað fyrirtækið sem skipulagði ferð þeirra á Everest og þá sjerpa sem aðstoðuðu þau Yaday og Goswami í ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×