Enski boltinn

Ef Liverpool missti aftur jafnmörg stig og á milli ára þá sæti liðið í fallsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og félagar í Liverpool þurfa passa sig ef þeir ætla að ná einu af fjórum sætunum sem gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Mohamed Salah og félagar í Liverpool þurfa passa sig ef þeir ætla að ná einu af fjórum sætunum sem gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. Getty/Laurence Griffiths

Tvö lið í ensku úrvalsdeildinni eru í algjörum sérflokki þegar kemur að því að hafa verið með mesta stigahrunið frá því í fyrra.

Liverpool er með 27 stigum færra í ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið var með á sama tíma og í fyrra.

Fyrir ári síðan þá var Liverpool liðið svo gott sem búið að tryggja sér enska meistaratitilinn á þessum tíma enda með tuttugu stiga forystu á toppi deildarinnar í febrúarmánuði.

GiveMeSport tóku saman breytingar á stigum félaganna sem hafa spilað í ensku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil.

Liverpool er með mesta stigahrunið en Sheffield Unitd er ekki svo langt undan. Sheffield liðið er með 22 stigum færra en í fyrra.

Liverpool liðið hefur aðeins unnið 11 af fyrstu 23 leikjum sínum og hefur þegar tapað fimm leikjum. Liðið er eins og er í fjórða sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Manchester City sem á einnig leik til góða.

Ef Liverpool mynda aftur missa 27 stig milli tímabila þá sæti liðið í fallsæti deildarinnar. Liverpool væri þá bara með þrettán stig en Fulham situr núna í þriðja neðsta sæti deildarinnar með fimmtán stig.

Hinum megin á listanum eru West Ham og Aston Villa sem hafa bætt sig mest á milli tímabila. West Ham er núna í sjötta sætinu með 39 stig sem er sextán stigum meira en í fyrra og Aston Villa er með fjórtán stigum meira en á sama tíma í fyrra.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton og lærisveinar Ole Gunnars Solskjær í Manchester United eru líka með bætingu um meira en tíu stig.

Þannig hefur orðið 38 stiga sveifla á stigamun á erkifjendunum Liverpool (-27) og Manchester United (+11) á aðeins einu ári.

Mesta stigahrunið á milli tímabila í ensku úrvalsdeildinni:

  • Liverpool: -27
  • Sheffield United: -22
  • Wolves: -7
  • Newcastle: -4
  • Crystal Palace: -1
  • Burnley: -1
  • Chelsea: 0
  • Brighton: 0
  • Southampton: +1
  • Arsenal: +2
  • Man City: +3
  • Tottenham: +6
  • Man United: +11
  • Everton: +12
  • Aston Villa: +14
  • West Ham: +16



Fleiri fréttir

Sjá meira


×