Enski boltinn

Segir að Grealish sé eins og réttfættur Messi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jack Grealish hefur verið einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.
Jack Grealish hefur verið einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili. getty/Shaun Botterill

Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa, segir að samherji sinn, Jack Grealish, minni um margt á sjálfan Lionel Messi.

„Hann er hæfileikaríkasti leikmaður sem ég hef séð. Hann tapar boltanum aldrei. Þegar ég gríp fyrirgjöf og sé Grealish á ferðinni veit ég að við munum eiga skot á mark eða fá hornspyrnu,“ sagði Martínez.

„Hann leikur á tvo eða þrjá leikmenn. Ég sé bara Messi með hægri fót! Þegar hann er með boltann geturðu ekki náð honum af honum.“

Grealish hefur átt afar gott tímabil með Villa. Í 21 leik í ensku úrvalsdeildinni hefur hann skorað sex mörk og gefið tíu stoðsendingar.

„Ég held að hann sé hæfileikaríkasti enski leikmaðurinn. Ég er hissa að hann hafi ekki spilað fleiri landsleiki,“ sagði Martínez um Grealish sem hefur leikið fimm leiki fyrir enska landsliðið.

„Messi er Messi, sá besti allra tíma. En á æfingum, þegar Grealish er með boltann vill enginn tækla hann. Hann getur gert allt. Þetta er eins og þegar ég æfi með Messi hjá landsliðinu, þá vill enginn snerta hann.“

Martínez hefur leikið vel með Villa og haldið hreinu í ellefu af 21 leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Argentínumaðurinn kom til Villa frá Arsenal síðasta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×