Enski boltinn

Segir tíma til kominn að Man. City verði liðið hans Harrys Kane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane í leiknum gegn Manchester City á laugardaginn.
Harry Kane í leiknum gegn Manchester City á laugardaginn. getty/Shaun Botterill

Harry Kane yrði fullkominn fyrir Manchester City. Þetta segir Martin Samuel, pistlahöfundur hjá Daily Mail.

Kane og félagar í Tottenham töpuðu 3-0 fyrir City í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Kane var nálægt því að koma Spurs yfir snemma í leiknum en eftir að Rodri kom City yfir með marki úr vítaspyrnu var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.

Í pistli sínum spyr Samuel hvort Kane þurfi ekki að hugsa sér til hreyfings í sumar, sérstaklega ef Spurs nær ekki Meistaradeildarsæti. Samuel segir að Kane, sem verður 28 ára í júlí, eigi á hættu að eyða sínum bestu árum í hálfgerðri meðalmennsku hjá Tottenham.

Samuel segir að Kane gæti gert gott lið City enn betra og fyllt skarð Sergios Agüero hjá liðinu. Argentínumaðurinn hefur lítið spilað með City í vetur vegna meiðsla og samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Þrátt fyrir að vera án Agüeros hefur City unnið hvern leikinn á fætur öðrum og er komið í góða stöðu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, hefur kallað Spurs „Harry Kane liðið“. Samuel segir að nú sé kominn tími til að City verði liðið hans Kanes.

Kane hefur skorað þrettán mörk og gefið ellefu stoðsendingar í 21 deildarleik fyrir Spurs á tímabilinu. Hann er þriðji markahæstur í ensku úrvalsdeildinni og sá stoðsendingahæsti.

Kane gæti unnið sinn fyrsta titil á ferlinum þegar Tottenham mætir City í úrslitaleik deildabikarsins 25. apríl. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×