Man United jafnaði Leicester að stigum eftir tor­sóttan sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Man Utd fagna marki Bruno Fernandes í kvöld.
Leikmenn Man Utd fagna marki Bruno Fernandes í kvöld. EPA-EFE/Stu Forster

Manchester United þurfti að hafa fyrir hlutunum er Newcastle United kom í heimsókn á Old Trafford. Á endanum fór það svo að Man United vann 3-1 sigur og jafnaði þar með Leicester City að stigum í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikmenn Manchester United virkuðu frekar þreyttir í upphafi leiks en liðið vann 4-0 sigur á Real Sociedad í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn. Leikið var í Róm á Ítalíu og virtist sem ferðalagið sæti enn í heimamönnum.

Það þurfti einstaklingsframtak frá Marcus Rashford til að brjóta ísinn en hann fékk boltann úti á vinstri vængnum. Hann tók Emil Krafth á og sendi hann á hjólinu sínu út í búð. Rashford negldi boltanum svo niðri í nærhornið á marki Karl Darlow. Lítið sem markvörðurinn gat gert í þessu en hann virtist reikna með að Rashford myndi reyna snúa boltann í fjær.

Forystan entist ekki lengi en Allan Saint-Maximin jafnaði metin sex mínútum síðar. Enn og aftur voru leikmenn Man United í vandræðum með föst leikatriði mótherja sinna. Harry Maguire skallaði hornspyrnu frá en ekki nægilega langt. Boltinn lenti fyrir fótum Saint-Maximin sem tók hann í fyrsta og þaðan í netið.

Staðan því 1-1 er flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri en Daniel James kom heimamönnum nokkuð óvænt yfir þegar tæp klukkustund var liðin af leiknum. Bruno Fernandes potaði þá sendingu Nemanja Matic á James sem var í nokkuð þröngu færi. Walesverjinn var ekkert að tvínóna við hlutina og þrumaði á markið.

Aftur kom Darlow engum vörnum við og staðan orðin 2-1 heimamönnum í vil þökk sé James sem var að skora annan leikinn í röð.

Þegar stundarfjórðungur lifði leiks var Rashford svo felldur í teignum. Bruno fór á punktinn og skoraði af öryggi. Hans fimmtánda deildarmark á leiktíðinni. Ofan á það hefur hann lagt upp tíu, ótrúlegar tölur fyrir miðjumann.

Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur leiksins. Shola Shoretire kom inn af varamannabekk heimamanna undir lok leiks en sá er fæddur í febrúar árið 2004.

Sigurinn þýðir að Man Utd er jafnt Leicester að stigum en Newcastle er komið í bullandi fallbaráttu en Fulham – sem er í 18. sæti – er nú aðeins þremur stigum á eftir lærisveinum Steve Bruce.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira