Körfubolti

Gaf Hildi tvö olnbogaskot á innan við mínútu og var rekin út úr húsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikita Telesford sést hér í leik með Skallagrími en á skjámyndinni til vinstri má sjá hana vera búin að gefa Hildi Björg Kjartansdóttur olnbogaskot.
Nikita Telesford sést hér í leik með Skallagrími en á skjámyndinni til vinstri má sjá hana vera búin að gefa Hildi Björg Kjartansdóttur olnbogaskot. Vísir/Samsett/Vilhelm/S2 Sport

Olnboganir flugu í leik Skallagríms og Vals í kvennakörfunni í gær. Hér má sjá þegar íslenski landsliðsmiðherjinn fékk að finna fyrir því í Fjósinu.

Nikita Telesford og Hildur Björg Kjartansdóttir kláruðu hvorugar leik Skallagríms og Vals í Domino´s deildinni í körfubolta í gær. Hildur fór meidd af velli eftir olnboga Telesford sem var aftur á móti rekin út úr húsi fyrir olnbogaskotið.

Telesford var uppvís að því að gefa íslenska landsliðsmiðherjum tvö olnbogaskot með stuttu millibili í fjórða leikhluta í Borgarnesi í gær og dómarar leiksins ráku hana út úr húsi fyrir það síðara.

Klippa: Olnbogaskot Nikitu Telesford

Nikita og Hildur Björg höfðu barist hart undir körfunum allan leikinn og héldu hvorri annarri niðri í stigaskorinu enda fór orkan kannski í annað. Báðar skoruðu þær aðeins fjögur stig en Hildur tók átta fleiri fráköst.

Í fjórða leikhluta var Valsliðið að sigla sigrinum heim þegar Nikita Telesford fór að láta olnbogana fljúga. Hildur fékk þannig tvö olnbogaskot frá henni á aðeins nokkrum sekúndum.

Fyrri olnbogaskotið kom þegar Nikita Telesford var að stíga út Hildi í vítaskoti Helenu Sverrisdóttur en hið síðara þegar þær voru að berjast um stöðu í teignum hinum megin á vellinum. Hildur kvartaði undan því fyrra en steinlá eftir að síðara.

Hér fyrir ofan má sjá þessi tvö olnbogaskot. Það má búast við því að Nikita Telesford eigi höfði sér leikbann fyrir þessa hegðun sín í Fjósinu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×