Enski boltinn

Stoltur liðsfélagi Gylfa: Við skrifuðum söguna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez og Gylfi Sigurðsson standa við boltann í aukaspyrnu Everton fyrr á tímabilinu.
James Rodriguez og Gylfi Sigurðsson standa við boltann í aukaspyrnu Everton fyrr á tímabilinu. Getty/Tony McArdle

James Rodriguez var ánægður í viðtölum við fjölmiðla í heimalandi sínu Kólumbíu eftir 2-0 sigur Everton á Anfield um helgina.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði seinna mark Everton í leiknum en James Rodriguez lagði upp það fyrra fyrir Brasilíumanninn Richarlison.

Everton vann þarna sinn fyrsta sigur á Anfield á þessari öld (sá síðasti vannst 1999) og sinn fyrsta sigur á Liverpool eftir tuttugu leikja bið.Everton náði líka Liverpool að stigum og á að auki leiki inni á nágranna sína.

„Þetta var mjög erfiður leikur. Það vita allir að Liverpool er með frábært lið. Ég tel að þeir séu eitt af þeim þremur liðum sem spila besta fótboltann í dag,“ sagði James Rodriguez í viðtali við blaðamann Marca Claro í Kólumbíu.

„Ég er ánægður með að hafa hjálpað liði mínu að vinna leikinn í dag. Everton hafði ekki unnið á Anfield síðan 1999 svo við skrifum söguna í þessum leik. Ég var ánægður að fá að hafa tekið þátt í því. Ég vona að okkur gangi vel áfram,“ sagði Rodriguez.

Það voru einhverjar slúðurfréttir um óánægju hjá Kólumbíumanninum en hann segir ekkert til í því.

„Ég er ánægður hérna. Við vitum öll að þetta er nýtt svið fyrir mig. Ég er næstum því orðinn þrítugur. Ég er ánægður með að fá að kynnast einhverju nýju og þetta safnast allt saman í púkkið,“ sagði Rodriguez.

„Það mun reyna á Everton á næstunni. Allir vita það að í ensku úrvalsdeildinni þá er leikur á þriggja daga fresti og hver leikur er eins og úrslitaleikur. Þú þarft að vera tilbúinn og nógu viljasterkur til að vinna,“ sagði Rodriguez.

„Það eru leikir hjá okkur þar sem hlutirnir ganga vel og aðrir þar sem þeir ganga illa. Fótboltinn er samt mjög harður núna. Það eru lið sem hafa ekki mikil gæði en þau reyna að vinna með því að láta finna fyrir sér og brjóta af sér. Við erum tilbúnir í öllum leikjum og viljum spila góðan fótbolta,“ sagði James Rodriguez.

James Rodriguez hefur komið að níu mörkum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili (5 mörk og 4 stoðsendingar) en Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið að sex mörkum (4 mörk og 2 stoðsendingar).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×