Körfubolti

Aðeins 36 áhorfendur mega vera á leikjum kvöldsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áfram verður tómlegt um að litast á áhorfendapöllum íþróttahúsanna í kvöld.
Áfram verður tómlegt um að litast á áhorfendapöllum íþróttahúsanna í kvöld. vísir/vilhelm

Liðin sem eiga heimaleiki í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld geta ekki tekið á móti tvö hundruð áhorfendum. Enn á eftir að útfæra leiðbeiningar til að það verði hægt. Þó mega tæplega fjörutíu manns mæta á leiki kvöldsins.

Meðal þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á samkomutakmörkunum er að áhorfendur á íþróttaviðburði verða leyfðir á ný. Tvö hundruð manns mega mæta á íþróttaviðburði að því gefnu að hægt sé að tryggja að fólk sé í sætum og eins metra fjarlægð sé á milli óskildra aðila. Þá þarf fólk að vera með grímu.

Stutt er síðan reglugerðin var gefin út, of stutt til að hægt verði að útbúa leiðbeiningar til að taka á móti tvö hundruð áhorfendum á leikjum kvöldsins. Vonast er til að KKÍ og HSÍ nái að klára leiðbeiningarnar á morgun. Unnið er að lausn og útfærslu þeirra með ÍSÍ og heilbrigðisráðuneytinu. Þangað til þær verða tilbúnir gilda fyrri leiðbeiningar um framkvæmd leikja.

„Ef við hefðum fengið að vita þetta í fyrradag og okkur gefið eitthvað skapalón hefði þetta geta verið tilbúið í dag. En þetta verður klárlega ekki tilbúið því það er enn verið að vinna þetta,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Vísi í dag.

Of knappur tími

Hannes segir að enginn sökudólgur sé í málinu, það taki bara tíma að vinna hluti sem þessa.

„Það er ekki við neinn að sakast. Ríkisstjórnin tók þessa ákvörðun í gær sem er gott og gilt, þannig að það var ekki hægt að vinna eftir neinu fyrr en eftir hádegi í gær. Þetta gerist bara hratt, reglugerðin tekur gildi strax á miðnætti en við megum ekki hleypa tvö hundruð áhorfendum inn fyrr en heilbrigðisráðuneytið er búið að samþykkja okkar reglugerð. Við gátum ekki klárað það fyrr en áðan því við vorum ekki búin að fá allar þær upplýsingar sem við þurftum frá heilbrigðisráðuneytinu,“ sagði Hannes.

Allt að fimmtíu manns mega vera viðstaddir leiki kvöldsins í Domino's deild kvenna, á svokölluðu ytra svæði. Er þar átt við fjölmiðla, starfsfólk leiksins og svo mega 36 áhorfendur mæta á leikina í kvöld. Þeir þurfa að fylgja tveggja metra reglunni og virða grímuskylduna.

33 áhorfendur í Grillinu

Fjórir leikir fara fram í Grill 66-deild kvenna í handbolta í kvöld. Aðeins 33 áhorfendur mega vera á þeim leikjum.

Eins og áður sagði standa vonir til að hægt verði að klára leiðbeiningarnar til að hægt verði að taka á móti tvö hundruð áhorfendum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×