Körfubolti

Guðni nýtti sér afléttingu áhorfendabanns og mætti á Vesturlandsslaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson veifar til fólks fyrir leik Snæfells og Skallagríms.
Guðni Th. Jóhannesson veifar til fólks fyrir leik Snæfells og Skallagríms. stöð 2 sport

Áhorfendur máttu aftur mæta á íþróttaviðburði í gær og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, nýtti tækifærið og skellti sér í Stykkishólm til að sjá leik Snæfells og Skallagríms í Domino's deild kvenna.

Meðal þeirra breytinga sem voru gerðar á samkomutakmörkunum er að áhorfendur á íþróttaviðburði voru leyfðir á ný. Miðað er við tvö hundruð manns en það er ekki enn gengið í gegn þar sem leiðbeiningar um framkvæmd leikja eru ekki klárar. En liðin fjögur sem áttu heimaleiki í Domino's deild kvenna í gær gátu tekið á móti 36 áhorfendum.

Snæfell var eitt þeirra liða sem átti heimaleik í gær og meðal áhorfenda í íþróttahúsinu í Stykkishólmi var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson. Hann mætti í Hólminn ásamt tveimur sonum sínum.

Klippa: Guðni Th. Jóhannesson mætti á Vesturlandsslaginn

Feðgarnir sáu mikinn spennuleik en aðeins eitt stig skildi liðin að. Skallagrímur vann, 65-66, en Snæfell fékk tvö tækifæri í lokasókn sinni til að vinna leikinn.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Borgnesinga með 24 stig og fjórtán fráköst. Sanja Orazovic skoraði fimmtán stig og tók ellefu fráköst.

Haiden Palmer lék hverja einustu mínútu fyrir Snæfell í leiknum, skoraði 22 stig, tók fimmtán fráköst og gaf sex stoðsendingar. Emese Vida skoraði þrettán stig og tók 21 frákast.

Skallagrímur er í 5. sæti deildarinnar með tíu stig en Snæfell í því sjöunda með fjögur stig.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

Aðeins 36 áhorfendur mega vera á leikjum kvöldsins

Liðin sem eiga heimaleiki í Domino's deild kvenna í körfubolta í kvöld geta ekki tekið á móti tvö hundruð áhorfendum. Enn á eftir að útfæra leiðbeiningar til að það verði hægt. Þó mega tæplega fjörutíu manns mæta á leiki kvöldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×