Enski boltinn

Klopp: Allir búnir að afskrifa okkur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Klopp á hliðarlínunni í gær.
Klopp á hliðarlínunni í gær. vísir/Getty

Stjóri Englandsmeistaranna segist finna fyrir því að fólk sé búið að afskrifa lið sitt eftir slæmt gengi að undanförnu.

Það var þungu fargi létt af Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, eftir að hann sá lið sitt vinna 0-2 sigur á botnliði Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Liverpool batt þar með enda á fjögurra leikja taphrinu.

„Okkar plan var að halda áfram að gera sömu hluti og við höfum verið að gera. Þegar við náðum að spila eins og við vildum gátu þeir ekki ráðið við okkur,“ sagði Klopp.

„Sheffield United hefur tapað mörgum leikjum en flestir þeirra með minnsta mun. Þeirra leikir eru alltaf spennandi til enda. Við hefðum getað skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik. Við vorum að skapa okkur fullt af færum. Færanýtingin var nógu góð en við getum gert betur.“

Spekingar hafa talað um titilvörn Liverpool sem þá verstu í langan tíma en liðið er nítján stigum á eftir toppliði Manchester City og verður að teljast ólíklegt að Liverpool nái að keppa um titilinn á þessari leiktíð.

„Það er eðlilegt að við séum gagnrýndir. Það eru allir búnir að afskrifa okkur og það er allt í lagi,“ segir Klopp sem virðist vera farinn að horfa á baráttuna um að komast í eitt af fjórum efstu sætum deildarinnar.

„Þetta snerist um að sýna að við erum enn hérna. Við mætum Chelsea á fimmtudag og þá ætlum við að sýna það aftur. Við verðum að vinna leiki, við vitum það. Það er engin leið inn í Meistaradeildina önnur en að vinna leiki. Við náðum því núna og höldum áfram,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×