Enski boltinn

Leikmaður Fulham fær nýtt nýra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin McDonald hefur ekkert spilað með Fulham í vetur vegna nýrnasjúkdóms.
Kevin McDonald hefur ekkert spilað með Fulham í vetur vegna nýrnasjúkdóms. getty/Jacques Feeney

Kevin McDonald, leikmaður Fulham og skoska landsliðsins, þarf að gangast undir nýrnaígræðslu.

Hann hefur glímt við nýrnasjúkdóm í tólf ár og honum hefur hrakað að undanförnu og ekkert getað spilað í vetur. Það er því ekkert annað í boði en að fara í nýrnaígræðslu.

Fresta hefur slíkum aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins en McDonald vonast til að fá nýtt nýra í apríl. Við tekur svo þriggja mánaða endurhæfing.

„Fótbolti er frábær en þetta er í forgangi. Ég vil klára þetta núna svo ég geti lifað eðlilegu lífi,“ sagði McDonald sem er 32 ára. Hann vonast til að geta haldið áfram að spila þótt það verði líklega ekki í ensku úrvalsdeildinni. Í vetur hefur hann tekið þjálfaragráður og hjálpað til við þjálfun yngri liða Fulham.

Bæði bróðir McDonalds og einn besti vinur hans hafa boðist til að gefa honum nýra.

McDonald gekk í raðir Fulham frá Wolves 2016. Hann hefur tvisvar sinnum hjálpað liðinu að komast upp í ensku úrvalsdeildina. McDonald hefur leikið fimm leiki fyrir skoska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×