Enski boltinn

Liverpool menn yfir þúsund daga á meiðslalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðinn Jordan Henderson er síðasti lykilmaðurinn til að meiðast hjá Liverpool á þessari leiktíð.
Fyrirliðinn Jordan Henderson er síðasti lykilmaðurinn til að meiðast hjá Liverpool á þessari leiktíð. Getty/Robbie Jay Barratt

Englandsmeistarar Liverpool eru langefstir á listanum yfir meiðsli leikmanna í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að skrifa um meiðsli leikmanna Liverpool í titilvörninni og ekki að ástæðulausu.

Jürgen Klopp hefur sem dæmi þurft að stilla upp átján mismunandi miðvarðarpörum á leiktíðinni en það virðist vera stórhættulegt fyrir leikmenn Liverpool að spila í miðri vörninni.

Sky Sports tók saman þá daga sem leikmenn liðanna hafa verið frá vegna meiðsla.

Leikmenn Liverpool eru nú komnir með yfir þúsund daga á meiðslalistanum en aðeins eitt annað lið er yfir átta hundruð dögum á listanum.

Næsta félag er Crystal Palace en svo kom Newcastle og Southamption í næstu sætum.

Stærstu meiðslin hjá Liverpool eru án efa fjarvera hollenska miðvarðarins Virgil van Dijk sem sleit krossband í hné á móti Everton um miðjan október.

Miðverðirnir Joe Gomez og Joël Matip eru líka meiddir sem og þeir Fabinho og Jordan Henderson sem hafa leyst af í vörninni síðan að Van Dijk meiddist.

Þá hefur Naby Keita verið mikið frá að venju og liðið misst líka Diogo Jota í byrjun desember og portúgalski framherjinn er ekki enn byrjaður að spila aftur.

Það er margt sem bendir til þess að mikið álag á fáum leikmönnum undanfarin tímabil sé að koma í bakið á Jürgen Klopp og lærisveinum hans. Fyrir vikið er liðið ekki að keppa um Englandsmeistaratitilinn í mars heldur um að komast aftur upp í hóp fjögurra efstu liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×