Enski boltinn

Stjórinn grínaðist með að ætla drekka alla bjóra liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Wilder á hliðarlínunni hjá Sheffield United en hann þarf kraftaverk til að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni.
Chris Wilder á hliðarlínunni hjá Sheffield United en hann þarf kraftaverk til að bjarga liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Getty/John Sibley

Leikmenn Sheffield United fengu ekki að fagna sigrinum á Aston Villa í gærkvöldi því knattspyrnustjórinn Chris Wilder bannaði allt bjórþamb.

Neðsta lið deildarinnar missti Phil Jagielka af velli með rautt spjald á 57. mínútu leiksins en tókst samt að landa 1-0 sigri á Aston Villa. Þetta var aðeins fjórði sigur liðsins á tímabilinu.

Sigurmarkið skoraði David McGoldrick á 30. mínútu eftir stoðsendingu frá gamla Eyjamanninum George Baldock.

„Ég sagði bara við mína leikmenn að ég muni fagna fyrir þá í kvöld. Það er annar stór leikur hjá þeim strax á laugardaginn. Ég mun drekka alla bjórana sem þeir höfðu annars drukkið í kvöld. Ég færi létt með það,“ sagði Chris Wilder léttur eftir leikinn.

„Ég gat ekki beðið um meira en þessa frammistöðu. Við höfum oft varist illa á þessu tímabili og höfum verið arkitektarnir að okkar eigin vandræðum. Þið sáuð aftur á móti toppklassa varnarleik í lok leiksins í kvöld,“ sagði Wilder.

Hann hrósaði sínu mönnum fyrir hugarfarið á tímabilinu þótt að liðið sé í neðsta sæti og líklegast á leiðinni niður.

„Það hefur alltaf búið þessi karakter í liðinu en það hefur verið auðvelt að gagnrýna liðið mitt þegar úrslitin hafa ekki fallið með okkur,“ sagði Wilder.

Sheffield United er tólf stigum frá öruggu sæti eftir sigurinn í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×