Youtube síðan HITC Sevens rifjaði upp þessa risastóru stund fyrir íslenska knattspyrnu í nýlegu myndbandi þar sem kannað var hvað væri að frétta af íslensku landsliðsmönnunum sem byrjuðu á móti Englandi í sextán liða úrslitum EM í Frakklandi sumarið 2016.
Það voru fullt af Íslendingum í stúkunni í Nice mánudagskvöldið 27. júní 2016 og restin fylgdist með í sjónvarpinu heima. 2-1 sigur Íslands á Englandi verður örugglega ógleymanlegur fyrir þá Íslendinga sem lifðu þennan dag.
England komst yfir í upphafi leiks en íslensku strákarnir svöruðu með tveimur mörkum fyrir hlé og héldu enska landsliðinu síðan í skefjum í seinni hálfleiknum.
Það eru ekki bara Íslendingar sem gleyma þessum leik seint það verður líka erfitt fyrir Englendinga að gleyma þessu kvöldi sem er eitt það allra svartasta í sögu enska landsliðsins. Tap á móti litla Íslandi var lágpunktur að mati stuðningsmanna enska landsliðsins og eins vandræðalegt fyrir þessa miklu fótboltaþjóð og það verður.
Youtube-maðurinn Alfie Potts Harmer ákvað á dögunum að henda í samantekt þar sem hann fór yfir byrjunarliðsmenn íslenska liðsins og hvar þeir séu að gera í dag.
Alfie byrjaði á að biðja alla Íslendinga afsökunar á framburði sínum í myndbandinu þar sem hann fer með nöfn íslensku leikmannanna. Það var ekki af ástæðulausu.
Hér fyrir ofan má sjá þetta myndband en þessi eftirminnilegi leikur í Nice verður aldrei of oft rifjaður upp.