Enski boltinn

Keane sakaði Jesus um heimsku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gabriel Jesus gerði sig sekan um afdrikarík mistök í Manchester-slagnum.
Gabriel Jesus gerði sig sekan um afdrikarík mistök í Manchester-slagnum. getty/Laurence Griffiths

Roy Keane og Greame Souness drógu hvergi af sér þegar þeir gagnrýndu Gabriel Jesus fyrir vítaspyrnuna sem hann fékk á sig í upphafi leiks Manchester-liðanna, City og United, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Aðeins þrjátíu sekúndur voru liðnar af leiknum þegar Jesus braut á Anthony Martial innan vítateigs eftir að hafa tapað boltanum á eigin vallarhelmingi. Anthony Taylor benti á vítapunktinn og Bruno Fernandes skoraði úr spyrnunni og kom United yfir. Luke Shaw bætti svo marki við í seinni hálfleik og United fagnaði 0-2 sigri.

„Þetta er heimska,“ sagði Keane á Sky Sports í gær. „Hvað er hann að gera? Hvað fer í gegnum hausinn á honum? Þetta er brjálæði, að gera þetta strax á fyrstu mínútu í grannaslag.“

Souness tók í sama streng og Keane. „Þetta er bara vitlaust hjá leikmanni sem var pirraður eftir að hafa misst boltann. United hefði verið stressað í upphafi leiks en þeir fengu víti og mikið sjálfstraust. Þeir spiluðu eins og þetta væri stórleikur Evrópuleikur á útivelli.“

Með því að vinna leikinn í gær stöðvaði United ótrúlega sigurgöngu City sem hafði unnið 21 leik í öllum keppnum í röð.

Þrátt fyrir tapið er City enn með ellefu stiga forskot á United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og er í kjörstöðu til að verða Englandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×