„Krakkarnir hafa undirbúið sig undir að taka prófin í þessari viku. Mæta í morgun og allt gengur á afturfótunum. Erfiðleikar við innskráningu, detta út þegar þau hafa skrá sig inn, svör við spurningum birtast á vitlausum stöðum, detta aftur út og undir hælinn lagt hvernig gengur að skrá sig inn aftur,“ skrifar Hafsteinn á Facebook í kvöld.
„Þetta eru fullkomlega óboðlegar aðstæður og alvarlegt að prófið skuli vera lagt fyrir þegar ljóst var að kerfið er ónýtt.“
Kennsla í uppnámi
Prófunum hefur nú verið frestað vegna uppákomunnar og hefst próftaka mánudaginn 15. mars. Þá hafa grunnskólarnir tveggja vikna glugga til að stilla upp prófunum hjá sér í íslensku, stærðfræði og ensku.
Umboðsmaður barna gagnrýndi málið í dag og sagði menntamálaráðuneytið þurfa að tryggja fullnægjandi prófakerfi eða fella prófin niður. Það að fresta prófinu fæli í sér aukið álag á nemendur sem hefðu margir hverjir undirbúið sig í lengri tíma.
„Nám og kennsla í 9. bekk er því í uppnámi í marga daga vegna þessara prófa. Þessi próf hafa ekkert gildi fyrir nemendur eða skólastarf. Þau bæta engu við það sem verið er að gera í skólunum en hafa í för með sér kostnað fyrir skólana og menntamálayfirvöld,“ skrifar Hafsteinn.
Hann segir dapurlegt að horfa upp á horfa upp á þetta, það sé hvorki Menntamálastofnun né ráðuneytinu til framdráttar.
„Látum þessi próf róa.“