Enski boltinn

Tuchel húðskammaði Werner fyrir að vera á vitlausum kanti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Timo Werner virtist ekki vera viss á hvorum kantinum hann átti að spila gegn Everton.
Timo Werner virtist ekki vera viss á hvorum kantinum hann átti að spila gegn Everton. getty/Darren Walsh

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, heyrðist húðskamma Timo Werner í 2-0 sigri liðsins á Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Tuchel gat leyft sér að vera ánægður með sigurinn en hann var allt annað en sáttur með Werner eins og heyrðist greinilega í útsendingu frá leiknum.

Á 26. mínútu, þegar staðan var markalaus, skammaði Tuchel landa sinn fyrir að spila í rangri stöðu.

„Timo, hversu lengi ætlarðu að vera á vinstri kantinum? Þú átt að spila hægra megin! Síðustu fimmtán mínútur ertu búinn að vera á vinstri! Skilurðu ekki?“ sagði Tuchel við Werner.

Sex mínútur eftir að Tuchel lét óánægju sína með Werner í ljós komst Chelsea yfir með marki Kais Havertz eftir sendingu Marcos Alonso. Jorginho bætti svo öðru marki við úr vítaspyrnu í seinni hálfleik.

Werner var líflegur í leiknum en mistókst að skora eins og svo oft í vetur. Hann hefur aðeins skorað fimm mörk í 27 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á sínu fyrsta tímabili hjá Chelsea. Alls hefur hann spilað 37 leiki í vetur og skorað tíu mörk.

Chelsea hefur gengið frábærlega eftir að Tuchel tók við liðinu af Frank Lampard. Undir stjórn þess þýska hefur Chelsea unnið átta af ellefu leikjum sínum og gert þrjú jafntefli.


Tengdar fréttir

Töl­fræðin talar sínu máli

Chelsea hefur ekki tapað leik eftir að Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við stjórnartaumunum hjá liðinu eftir að Frank Lampard var rekinn.

Chelsea á fleygi­ferð undir stjórn Tuchels

Chelsea vann nokkuð þægilegan 2-0 sigur á Everton á heimavelli í kvöld en Chelsea liðið hefur verið á góðu skriði síðan að Þjóðverjinn Thomas Tuchel tók við liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×