Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool geta andað léttar: Klopp tekur ekki við þýska landsliðinu í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp talar við Sadio Mane, leikmann Liverpool, fyrir einn leik liðsins á dögunum.
Jürgen Klopp talar við Sadio Mane, leikmann Liverpool, fyrir einn leik liðsins á dögunum. EPA-EFE/Laurence Griffiths

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, tók af allan ef á blaðamannafundi sínum í dag. Hann er ekki að fara að taka við þýska landsliðinu af Joachim Löw.

Í dag var það gert opinbert að Joachim Löw ætli að hætta með þýska landsliðið eftir EM í sumar.

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að menn voru fljótir að orða einn annan þýskan stjóra við starfið.

Það hefur lítið gengið hjá Liverpool á þessu tímabili og um leið að fréttist af því að þýska landsliðsþjálfarastarfið myndi losna í haust þá fóru sumir að velta því fyrir sér hvort að Jürgen Klopp myndi hætta með Liverpool og taka við þýska landsliðinu.

Stuðningsmenn Liverpool geta nú andað léttar því Klopp þvertók fyrir það á blaðamannafundi sínum í dag að hann væri að fara að taka við þýska landsliðinu í sumar.

„Mun ég taka við þýska landsliðinu í sumar? Nei,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi í dag en fram undan er Meistaradeildarleikur á móti þýska liðinu RB Leipzig.

„Joachim Löw hefur unnið magnað starf. Það mun einhver annar en ég taka við starfinu hans og miðað við allan þann fjölda góðra stjóra sem Þýskaland á þá er ég viss um að þýska sambandið finnur góðan mann í starfið,“ sagði Klopp.

„Ég á enn þrjú ár eftir af samningi mínum hjá Liverpool, er ekki svo? Þetta er einfalt. Þú skrifar undir samning og stendur við hann. Ég stóð við samningana mína hjá bæði Mainz og Dortmund,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×