Enski boltinn

Þjófar vopnaðir sveðjum brutust inn til markvarðar Everton

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robin Olsen og fjölskylda hans lentu í ömurlegri lífsreynslu um helgina.
Robin Olsen og fjölskylda hans lentu í ömurlegri lífsreynslu um helgina. getty/Jason Cairnduff

Menn vopnaðir sveðjum brutust inn til Robins Olsen, markvarðar Everton, um helgina. Hann var heima ásamt eiginkonu sinni og tveimur ungum börnum.

Grímuklæddir innbrotsþjófarnir ógnuðu Olsen-fjölskyldunni með sveðjum og flúðu svo á brott með skartgripi og önnur verðmæti.

Lögregla er með málið til rannsóknar og Everton styður þétt við bakið á Olsen og fjölskyldu hans eftir innbrotið.

Sænski markvörðurinn ku bera sig ágætlega eftir þessa erfiðu reynslu en fjölskyldan hefur flutt úr íbúðinni sem brotist var inn í.

Ekki er langt síðan brotist var inn á heimili Carlos Ancelotti, knattspyrnustjóra Everton. Þá var brotist inn til Fabinhos á meðan leik Liverpool og Chelsea í fyrra stóð.

Olsen kom til Everton á láni frá Roma í október. Hann hefur leikið níu leiki fyrir Everton á tímabilinu.

Hinn 31 árs Olsen hefur leikið 42 landsleiki fyrir Svíþjóð. Hann stóð í marki Svía á HM 2018 þar sem þeir komust í átta liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×