Erlent

Fimm dæmdir vegna morðsins á Andrei Karlov

Atli Ísleifsson skrifar
Óeirðalögreglumaðurinn Mevlut Mert Altintas skaut Karlov til bana við opnun listasýningar í desember 2016. Hann var ekki á vakt þegar ódæðið var framið.
Óeirðalögreglumaðurinn Mevlut Mert Altintas skaut Karlov til bana við opnun listasýningar í desember 2016. Hann var ekki á vakt þegar ódæðið var framið. EPA/Tytus Zmijewski

Dómstóll í Tyrklandi hefur dæmt fimm menn í lífstíðarfangelsi vegna aðildar sinnar að morðinu á Andrei Karlov, sendiherra Rússlands í Tyrklandi, í Ankara árið 2016.

Óeirðalögreglumaðurinn Mevlut Mert Altintas skaut Karlov til bana við opnun listasýningar í desember 2016. Hann var ekki á vakt þegar ódæðið var framið.

Árásarmaðurinn hrópaði „Allahu-Akbar“, Guð er mikill, og „Ekki gleyma Aleppo“ eftir að hafa skotið Karlov þar sem hann var að vísa í þátt rússneskra stjórnvalda í stríðinu í Sýrlandi. Altintas var skotinn til bana af lögreglu eftir árásina.

Lífstíðardómar eru nú harðasta refsingin í tyrknesku réttarkerfi eftir að dauðarefsing var afnumin í landinu árið 2002.

Réttað yfir Gülen í fjarveru hans

Í heildina voru 28 menn ákærðir í málinu þar sem þeir voru sakaðir um aðild að morði og að hafa ætlað sér að kollvarpa stjórnarskrá landsins. 

Í hópi ákærðu var predikarinn Fethullah Gülen, sem hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum frá árinu 1999 síðustu ár. Réttað var yfir Gülen og nokkrum fjölda til viðbótar í fjarveru þeirra.

Alls voru sex hinna ákærðu sakfelldir, en málum gegn Gülen og öðrum var frestað að því er segir í frétt Anadolu. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur sakað Gülen um að standa að baki valdaránstilraun í landinu árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×