Enski boltinn

Aubameyang kom síðastur og fór fyrstur eftir leikinn gegn Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang sat allan tímann á varamannabekk Arsenal gegn Tottenham.
Pierre-Emerick Aubameyang sat allan tímann á varamannabekk Arsenal gegn Tottenham. getty/Charlotte Wilson

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði Arsenal, kom ekkert við sögu í sigrinum á Tottenham í gær, 2-1, þar sem hann mætti of seint til leiks. Gabon-maðurinn fór hins vegar fyrstur frá Emirates eftir leikinn.

Aubameyang átti að vera í byrjunarliði Arsenal en Mikel Arteta, knattspyrnustjóri liðsins, setti hann á bekkinn eftir að hann mætti of seint á fund fyrir leikinn. Hann sat allan tímann á bekknum.

Aubameyang var hins vegar á hraðferð eftir leikinn. Hann fagnaði ekki með liðsfélögunum sínum, skokkaði sig ekki niður með hinum ónotuðu varamönnunum og var farinn frá Emirates 23 mínútum eftir leikinn.

Arteta vildi lítið ræða um Aubameyang eftir leik. „Við drögum línuna hér. Höldum núna áfram. Við vitum hversu mikilvægur Auba er fyrir okkur, fyrir félagið. Við höfum tekist á við þetta og höldum bara áfram.“

Aubameyang á von á sekt fyrir að mæta of seint til leiks í gær. Þetta ku ekki vera í fyrsta sinn sem hann mætir ekki tímanlega á fund fyrir leik.

Aubameyang hefur skorað fjórtán mörk í 29 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×