Enski boltinn

LeBron James meðeigandi í félaginu sem á Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James í heimsókn á Anfield árið 2011 eftir að hafa eignast 2% hlut í Liverpool.
LeBron James í heimsókn á Anfield árið 2011 eftir að hafa eignast 2% hlut í Liverpool. Getty/Andrew Powell

Körfuboltastjarnan LeBron James er komin með sterkari rödd í eigendahópi Liverpool eftir að hafa gerst meðeigandi í Fenway Sports Group, sem á enska knattspyrnufélagið.

James hefur átt 2% hlut í Liverpool frá árinu 2011. Á þeim áratug sem síðan er liðin hefur virði hlutarins hækkað úr 4,7 milljónum punda í 37 milljónir punda.

Nú eru James og viðskiptafélagi hans Maverick Carter svo orðnir meðeigendur í FSG sem á bæði Liverpool og hafnaboltafélagið Boston Red Sox.

FSG hefur sömuleiðis tilkynnt um 750 milljóna Bandaríkjadala fjárfestingu RedBird Capital Partners. Samkvæmt BBC er í gangi orðrómur þess efnis að FSG stefni á að bæta við sig nýju íþróttafélagi, samhliða því að styrkja stoðirnar hjá Liverpool og Boston Red Sox.

LeBron James er leikmaður meistara LA Lakers og er nú meðeigandi í félaginu sem á hafnaboltaliðið í heimaborg erkifjenda Lakers, Boston.AP/Jeff Chiu

Liverpool hefur verið í eigu FSG, sem þá hét reyndar New England Sports Ventures, frá árinu 2010. John Henry á stærstan hlut í félaginu og Tom Werner þann næststærsta. Þeir Werner og James hafa áður sameinað krafta sína, við framleiðslu sjónvarpsþáttaraðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×