Enski boltinn

Dagný og María mætast í Leikhúsi draumanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leik á Old Trafford um þarnæstu helgi.
Dagný Brynjarsdóttir í leik á Old Trafford um þarnæstu helgi. Getty/Alex Davidson

Kvennalið Manchester United leikur í fyrsta sinn á Old Trafford þegar það mætir West Ham United í ensku ofurdeildinni um þarnæstu helgi.

Dagný Brynjarsdóttir leikur með West Ham og verður væntanlega í eldlínunni þegar Hamrarnir mæta sterku liði United á Old Trafford í hádeginu á laugardaginn 27. mars.

„Að spila á Old Trafford verður augljóslega stór stund í sögu þessa liðs og er frábær vettvangur til að sýna kvennaboltann sem hefur vaxið hratt undanfarin ár,“ sagði Casey Stoney, knattspyrnustjóri United. 

Engir áhorfendur verða þó á leik United og West Ham Old Trafford vegna kórónuveirufaraldursins.

„Að sjálfsögðu söknum við stuðningsmannanna, þeir eru svo stór hluti af félaginu og við höfum fundið fyrir ótrúlegum stuðningi úr fjarlægð á tímabilinu. Við erum öll spennt að fá áhorfendur aftur á völlinn sem fyrst og vonum að við fáum mun fleiri tækifæri til að spila á Old Trafford í framtíðinni,“ sagði Stoney.

Heimavöllur United er Leigh Sports Village í Manchester sem tekur tólf þúsund manns í sæti. Auk kvennaliðs United spila U-19 og U-23 ára lið félagsins á Leigh Sports Village sem og ruðningsliðið Leigh Centurions.

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir leikur með United en hún kom til liðsins frá Chelsea í janúar.

United er í 3. sæti ensku deildarinnar með 35 stig, níu stigum á eftir toppliði Chelsea, en á leik til góða. West Ham er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×