Íslenski boltinn

Brenna frá Eyjum á Selfoss með viðkomu í Portúgal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brenna Lovera átti þátt í níu mörkum í níu leikjum þegar hún spilaði síðast í Pepsi Max deild kvenna.
Brenna Lovera átti þátt í níu mörkum í níu leikjum þegar hún spilaði síðast í Pepsi Max deild kvenna. Instagram/@selfossfotbolti

Bandaríska framherjinn Brenna Lovera mun spila með Selfossi í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í sumar.

Knattspyrnudeild Selfoss segir frá því á miðlum sínum að hún hafi fengið liðstyrk í framlínu liðsins með því að semja við hina 24 ára gömlu Brennu Lovera.

Brenna Lovera kemur til til Selfoss frá Boavista í Portúgal. Áður en hún fór til Portúgal lék Lovera með ÍBV á síðari hluta tímabilsins 2019 og skoraði þá sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar í níu leikjum.

Brennu er meðal annars ætlað að fylla skarð Hólmfríðar Magnúsdóttur sem lagði skóna á hilluna á dögunum. Þá er Dagný Brynjarsdóttir farinn út í atvinnumennsku til West ham þannig að Selfossliðið þurfti á liðstyrk að halda.

„Brenna á eftir að passa vel inn í þetta hjá okkur. Hún er kraftmikill sóknarmaður en einnig dugleg varnarlega, sterk í loftinu og í teignum. Hún er líka flottur karakter og hefur marga eiginleika sem eiga eftir að nýtast okkur vel. Þannig að við erum bara þrælspennt að fá hana til liðs við okkur,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Brenna Lovera spilaði á sínum tíma með Northwestern University í nágrenni Chicago en hún er frá Michigan fylki. Lovera skoraði 19 mörk og gaf 7 stoðsendingar í 74 leikjum í bandaríska háskólafótboltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×