Lífið

YouTu­be riftir sam­starfs­samningi við á­hrifa­valdinn James Charles

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Charles var fyrsti karlmaðurinn til að landa samningi við snyrtivörufyrirtækið CoverGirl.
Charles var fyrsti karlmaðurinn til að landa samningi við snyrtivörufyrirtækið CoverGirl. Instagram/James Charles

YouTube hefur rift samstarfssamningi sínum við áhrifavaldinn James Charles en Charles viðurkenndi fyrr í mánuðinum að hafa sent tveimur 16 ára drengjum skilaboð af kynferðislegum toga.

Hið svokallaða „Partnership Program“ gerir einstaklingum kleift að hagnast á framleiðslu efnis fyrir YouTube en talsmenn netrisans segja ákvörðunina um að rifta samningnum tímabundna.

Charles er talinn hafa hagnast um að minnsta kosti 20 milljónir dala á YouTube.

Á föstudag tilkynnti snyrtivöruframleiðandinn Morphe að hann hefði bundið enda á samstarf sitt við Charles. Þá verður sölu vara sem bera nafn áhrifavaldsins hætt.

Charles nýtur töluverðra vinsælda meðal yngri kynslóða og á sér 25,5 milljónir „fylgjenda“ á YouTube. Í myndskeiði sem hann birti fyrr í apríl sagðist hann hafa komist að því að tveir einstaklingar sem hann hefði skipst á skilaboðum við væru undir lögaldri.

Horft hefur verið á myndskeiðið 8,5 milljón sinnum.

Charles sagði aðrar ásakanir á hendur sér falskar.

YouTube hefur áður rift samstarfssamning, þá við David Dobrik, vegna meintrar aðkomu hans að kynferðisbrotum. Þá var YouTube-rás söngvarans Austin Jones eytt árið 2019, eftir að hann viðurkenndi að hafa sent kynferðisleg skilaboð til stúlkna undir lögaldri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×