Enski boltinn

Hender­son kallar fyrir­liða ensku úr­vals­deildarinnar á krísu­fund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Henderson kallar á fyrirliða ensku úrvalsdeildarinnar.
Henderson kallar á fyrirliða ensku úrvalsdeildarinnar. EPA-EFE/Laurence Griffiths

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, hefur boðað alla fyrirliða ensku úrvalsdeildarinnar á krísufund vegna mögulegrar stofnunar ofurdeildar Evrópu.

Daily Mail greindi frá nú rétt í þessu. Fyrr í dag fór Vísir yfir viðbrögð Harry Maguire, fyrirliða Manchester United, en hann var ekki par sáttur með hvernig forráðamenn Man United stóðu að málum er varðar ofurdeildina.

Henderson hefur nú kallað fyrirliða deildarinnar saman til að ræða áætlanir tólf liða Evrópu – þar af sex frá Englandi – um að stofna svokallaða ofurdeild. 

Henderson hefur áður fengið fyrirliða deildarinnar til að snúa bökum saman og stofnaði til að mynda sjóð til að hjálpa breska heilbrigðiskerfinu [NHS] vegna kórónufaraldursins.

Þetta mál mun reynast töluvert snúnara þar sem sex fyrirliðar eru á mála hjá félögum sem hafa nú þegar gefið út að þau stefni á að segja skilið við Meistaradeild Evrópu og ætli að stofna sína eigin deild.

Samkvæmt heimildum Daily Mail er stefnt að því að komast að því hvernig skal höndla málið á næstu dögum og vikum. Reikna má með því að leikmenn verði spurðir spjörunum úr varðandi ofurdeildina og skoðun þeirra á henni.

James Milner, samherji Henderson, sagði skoðun sína í viðtali við Sky Sports eftir 1-1 jafntefli Liverpool og Leeds United í gærkvöld. Hann sagðist einfaldlega að honum líkaði illa við hugmyndina og hann vonaðist til að deildin yrði ekki að veruleika.

Marcus Rashford ákvað að birta einfaldlega mynd af Old Trafford, heimavelli Manchester United, og láta hana segja skoðun hans á ákvörðun eiganda félagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×