Ensku félögin sex sem komu að stofnun ofurdeildarinnar sögðu sig úr henni í gærkvöldi. Eftir standa því aðeins sex félög, þrjú frá Ítalíu og þrjú frá Spáni.
Í viðtali við Reuters segir Agnelli að með brotthvarfi ensku félaganna séu forsendurnar fyrir ofurdeildinni brostnar.
„Ef ég á að vera alveg heiðarlegur og hreinskilinn er svarið nei, það virðist ekki svo vera,“ sagði Agnelli aðspurður hvort hægt væri að halda áfram með ofurdeildina.
Tólf félög tilkynntu um stofnun ofurdeildarinnar á sunnudagskvöldið. Eftir brotthvarf ensku félaganna sex sögðu forráðamenn ofurdeildarinnar þurfa að endurskipuleggja hana.
Miðað við ummæli Agnellis í morgun virðist hins vegar sem svo að ofurdeildin hafi sagt sitt síðasta, rúmum tveimur sólarhringum eftir að tilkynnt var um stofnun hennar.