Slysa­legt sjálfs­mark Leno tryggði E­ver­ton sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigurmark Everton í bígerð.
Sigurmark Everton í bígerð. Michael Regan/Getty Images

Everton vann 1-0 útisigur á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þökk sé einkar skrautlegu sjálfsmarki þýska markvarðarins Bernd Leno. Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn í liði Everton.

Gylfi Þór komst manna næst að brjóta ísinn í fyrri hálfleik þegar aukaspyrna hans fór af slánni og yfir. Þá átti Richarlison fínt færi en Leno varði vel. Staðan því markalaus í hálfleik og þannig var hún allt fram á 77. mínútu.

Richarlison elti þá langa sendingu úr vörn Everton. Hann komst alla leið inn á vítateig Arsenal þar sem hann gaf fyrir markið. Leno kom út til að hirða fyrirgjöfina, það fór ekki betur en svo að hann missti boltann milli fóta sér og í netið.

Skelfileg mistök og Everton komið 1-0 yfir. Fleiri urðu mörkin ekki og Everton vann því dýrmætan sigur. Er þetta í fyrsta sinn síðan 1986 sem Everton vinnur báða deildarleikina gegn Arsenal á einu og sama tímabilinu.

Everton er því áfram í 8. sæti, nú með 52 stig. Arsenal er með 46 stig í 9. sæti eftir að hafa leikið leik meira. Liverpool er í 7. sæti með 51 stig.

Gylfi Þór lék eins og áður sagði allan leikinn á miðju Everton. Það vakti einnig mikla athygli að vel heyrðist í áhorfendum á leik kvöldsins þó engir væru í stúkunni.

Fjöldinn allur af Arsenal stuðningsfólki var hins vegar fyrir utan völlinn til að mótmæla eiganda liðsins og ákvörðun hans að ætla fara með liðið í „ofurdeild Evrópu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira