Wood sló upp sýningu er Burnley fjarlægðist fallsvæðið

Chris Wood fór mikinn í dag.
Chris Wood fór mikinn í dag. Getty Images/Laurence Griffiths

Nýsjálendingurinn Chris Wood skoraði þrennu í mögnuðum 4-0 útisigri Burnley á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Jóhann Berg Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk Burnley.

Fyrir leik dagsins var Burnley í 17. sæti deildarinnar með 33 stig, sex stigum frá fallsvæðinu. Wolves var aftur á móti með 41 stig í 12. sæti, og sigldi því lygnan sjó um miðja deild.

Eftir um stundarfjórðungsleik kom Chris Wood Burnley í forystu eftir að hafa leikið skemmtilega á Conor Coady, varnarmann Úlfanna. Aðeins um sex mínútum síðar var Wood aftur á ferðinni er hann tvöfaldaði forystuna, í þetta skipti eftir stoðsendingu frá Dwight McNeil sem nýtti sér mistök í vörn Wolves.

Wood og McNeil sameinuðu krafta sína á ný undir lok fyrri hálfleiksins þegar sá fyrrnefndi fullkomnaði þrennu sína er hann skallaði inn hornspyrnu þess síðari. Þrjú mörk frá Wood á hálftíma kafla gáfu Burnley því 3-0 forystu í hléi.

Tékkinn Matej Vydra skoraði fjórða mark Burnley í upphafi síðari hálfleiks en myndbandsdómarar dæmdu markið af. Undir lok leiks skoraði Burnley hins vegar löglegt mark þegar Ashley Westwood innsiglaði magnaðan 4-0 útisigur liðsins.

Sigurinn skilar Burnley upp í 14. sæti með 36 stig, líkt og Southampton og Newcastle í sætunum fyrir neðan. Wolves er sem fyrr í 12. sætinu með 41 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira