Aðalfundarefnið verður ástandið í Mjanmar en þar hefur ríkt óeirðarástand síðan valdaránið var framið. Mikil mótmæli og átök milli hersins og andstæðinga hans hafa átt sér stað frá valdaráninu og meira en 700 almennir borgarar farist í átökunum.
Rök hersins fyrir valdaráninu eru þau að mikið kosningasvindl hafi verið framið í þingkosningunum 2020. Aðgerðasinnar hafa boðað til mótmæla um helgina vegna leiðtogafundarins.
Leiðtogar allra tíu sambandsríkjanna munu sækja fund Asean, það er leiðtogar Brúnei, Kambódíu, Indónesíu, Laos, Malasíu, Mjanmar, Filippseyja, Singapore, Taílands og Víetnam.
Þrátt fyrir ástandið í Mjanmar hafa verið skiptar skoðanir meðal leiðtoga ríkjanna um það hvort halda ætti leiðtogafund. Breska ríkisútvarpið segir augljóst að þau ríki sem eigi landamæri að Kína, séu mótfallnari því að grípa til aðgerða en þau sem liggja fjær Kína.
Meðal þeirra ríkja sem vilja grípa til aðgerða vegna ástandsins í Mjanmar er Indónesía, sem heldur fundinn. Indónesísk yfirvöld hafa verið hvað ákveðnust í því að grípa skuli inn í en þeim hefur reynst erfitt að sannfæra önnur Asean ríki um að grípa skuli til aðgerða.