Enski boltinn

Reynir allt til að halda Cavani

Sindri Sverrisson skrifar
Edinson Cavani fagnar öðru marka sinna á Old Trafford í gær en þarf að ímynda sér hvernig væri að skora þar fyrir framan 74 þúsund áhorfendur.
Edinson Cavani fagnar öðru marka sinna á Old Trafford í gær en þarf að ímynda sér hvernig væri að skora þar fyrir framan 74 þúsund áhorfendur. AP/Jon Super

Ole Gunnar Solskjær hefur reynt allt til að sannfæra Edinson Cavani um að halda kyrru fyrir hjá Manchester United og spila með liðinu á næstu leiktíð. Úrúgvæinn er hins vegar efins um að hann vilji verja öðru ári á Englandi.

Solskjær var spurður út í Cavani eftir að markahrókurinn skoraði tvö mörk, átti tvær stoðsendingar og fiskaði víti í 6-2 sigri United á Roma í gær. Cavani kom til United í október og skrifaði undir samning sem gildir til loka leiktíðarinnar, með möguleika á eins árs framlengingu sem hann er ekki viss um að vilja nýta.

„Hann veit hvað mér finnst,“ sagði Solskjær um Cavani. „Hann veit að ég myndi elska það að hafa hann áfram hérna.“

Lofaði honum að Old Trafford yrði allt annar staður

Ljóst er að argentínska félagið Boca Juniors vill fá hinn 34 ára gamla Cavani heim til Suður-Ameríku en Solskjær hefur meðal annars reynt að benda honum á hve allt öðruvísi verði að spila á Old Trafford á næstu leiktíð, með áhorfendur í stúkunum.

„Edinson er meira en bara maður sem potar inn mörkum. Hann er frábær í að hlaupa í auðu svæðin, vera miðpunktur í spilinu og fá aðra með í það,“ sagði Solskjær og kvaðst algjörlega í skýjunum með Cavani.

„Vonandi fáum við að sjá hann hér í eitt ár til viðbótar. Ég er að gera mitt besta. Ég lofaði honum því að Old Trafford væri allt annar staður með stuðningsmenn á svæðinu,“ sagði Solskjær.

Cavani hefur skorað 12 mörk á leiktíðinni, þar af fimm í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×