Fyrir lokaumferðina í kvöld hafði Hjörvar hálfs vinnings forskot á Jóhann Hjartarson. Hefðu þeir endað jafnir hefði þurft aukakeppni á milli þeirra tveggja á morgun. Hjörvar Steinn tryggði sér titilinn með því að sigra Sigurbjörn Björnsson en Jóhann vann sína skák gegn Hannesi Hlífari Stefánssyni.
Jóhann endaði í öðru sæti á Íslandsmótinu og Guðmundur Kjartansson, fráfarandi Íslandsmeistari, í því þriðja. Bragi Þorfinnsson var fjórði. Vignir Vatnar Stefánsson náði sínum öðrum áfanga að alþjóðlegum meistaratitli og vantar nú aðeins einn áfanga í viðbót til að verða útnefndur alþjóðlegur meistari, að því er segir í tilkynningu frá Skáksambandi Íslands.