Enski boltinn

Gareth Bale skorar örast allra í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale sýnir uppskeru síðasta leik hans með Tottenham á táknrænan hátt.
Gareth Bale sýnir uppskeru síðasta leik hans með Tottenham á táknrænan hátt. AP/Shaun Botterill

Það hafa liðið fæstar mínútur á milli marka Gareth Bale heldur en hjá öllum öðrum leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Gareth Bale hefur skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur deildarleikjunum undir stjórn Ryan Mason þar af þrennu í 4-0 sigri Tottenham á Sheffield United um síðustu helgi.

Bale fékk oft ekki mikið að spila þegar Jose Mourinho sat í stjórastólnum hjá Tottenham en hefur byrjað báða deildarleiki síðan að Mason tók við.

Bale hefur alls skorað níu mörk í sextán deildarleikjum á leiktíðinni og er sá leikmaður í deildinni sem skorar örast.

Það hafa nefnilega aðeins liðið 81 mínúta á milli marka Gareth Bale í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Átta af níu mörkum Bale hafa komið frá því á síðasta degi febrúarmánuði eða í síðustu átta leikjum. Bale hefur skorað í fjórum af síðustu sex byrjunarliðsleikjum sínum.

Bale er langt á undan næsta manni sem er Kelechi Iheanacho hjá Leicester sem hefur skorað á 116 mínútna fresti.

West Ham maðurinn Jessi Lingard, Liverpool maðurinn Diogo Jota og Tottenham fyrirliðinni Harry Kane komast einnig á topp fimm listann sem má sjá hér fyrir neðan.

Harry Kane er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 21 mark og Mohamed Salah hefur skorað marki minna. Bruno Fernandes hjá Manchester United og Heung-min Son hjá Tottenham koma síðan í þriðja sætinu með sextán mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×