Erlent

Fimm látnir eftir sveðju­á­rás á dag­heimili

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúar Saudades telja um níu þúsund.
Íbúar Saudades telja um níu þúsund. AP

Fimm eru látnir eftir sveðjuárás átján ára karlmanns á dagheimili í suðurhluta Brasilíu í gær. Lögregla segir að þrjú börn, öll yngri en tveggja ára, hafi látist í árásinni, auk tveggja starfsmanna.

BBC segir frá því að eftir árásina hafi árásarmaðurinn reynt að svipta sig lífi, en hann er nú á sjúkrahúsi og með alvarlega áverka. Árásin átti sér stað í smábænum Saudades í ríkinu Santa Catarina.

Tugir barna voru í byggingunni þegar árásin var gerð og reyndu starfsmenn að fela börnin eftir að maðurinn hafði ráðist þar inn. Auk þeirra þriggja barna sem létust, hlaut eitt barn til viðbótar minniháttar áverka.

Tilkynning barst um árásina um klukkan 10:30 að staðartíma eftir að nágrannar dagheimilisins tóku eftir ungum manni ryðjast þar inn, vopnaður sveðju.

Íbúar Saudades telja um níu þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×