Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Selfoss 0-3 | Nýliðarnir fengu skell

Atli Arason skrifar
visir-img
vísir/vilhelm

Leikurinn í Keflavík fór frekar rólega af stað og bæði lið augljóslega varkár í fyrsta leik liðanna á tímabilinu. Fyrsta skot leiksins kom ekki fyrr en á 22. mínútu og féll það í hlut Brenna Lovera, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Selfoss. Brenna náði þá að komast fram hjá Tiffany í marki Keflavíkur en skot hennar fer fram hjá markinu. Leikurinn hélt þó áfram að vera tíðindalítill en Selfoss fékk betri tækifæri til að skora. Anna María ógnaði marki heimakvenna tvisvar með skotum fyrir utan teig. Á 45. mínútu var það þó Brenna sem þrumaði boltanum upp í þaknet Keflavíkur og kemur gestunum yfir rétt fyrir leikhlé.

Síðari hálfleikur var heldur fjörugri og bæði lið fengu tækifæri. Á fyrstu 5 mínútum seinni hálfleiks sleppur sóknarmaður í gegnum vörn andstæðings báðu megin á vellinum. Fyrst er það Brenna Lovera sem sleppur í gegn vörn Keflavíkur en Tiffany Sornpao sér við henni, svo er það Dröfn Einarsdóttir sem sleppur í gegnum varnarlínu Selfoss en Guðný Geirsdóttir sér við Dröfn. Þegar klukkutími var liðinn tók Selfoss leikinn yfir. Anna María átti lúmskt skot beint úr aukaspyrnu sem smellur í þverslánni 5 mínútum áður en Hólmfríður Magnúsdóttir vinnur vítaspyrnu fyrir gestina sem Brenna skorar úr, 0-2 fyrir gestina. Það er svo Hólmfríður sjálf sem skorar þriðja mark Selfoss í leiknum á 81. mínútu og þar við sat. Selfoss fer því heim með stiginn þrjú.

Afhverju vann Selfoss?

Selfyssingar voru hættulegri fyrir framan mark rammann og náðu heilt yfir að skapa sér fleiri færi en Keflvíkingar í kvöld.

Hverjar stóðu upp úr?

Hólmfríður Magnúsdóttir sem hætti við að hætta í vor var frábær í liði gestanna og alltaf hættuleg. Hólmfríður nælir í vítaspyrnuna ásamt því að skora mark í kvöld. Brenna Lovera verður einnig að fá hrós fyrir frumraun sína í búningi Selfoss en Brenna skoraði tvö mörk í kvöld og var nálægt því oftar en einu sinni að næla sér í þrennuna.

Hvað gerist næst?

Keflavík heimsækir Stjörnuna í næsta leik liðsins á meðan Selfoss ferðast norður til að leika við Þór/KA á Akureyri.

Alfreð: Það var svona vor bragur á þessu

Alfreð Elías Jóhannssonvísir

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, var eðlilega mjög glaður að ná í stigin þrjú í fyrsta leik tímabilsins.

„Ótrúlega ánægður og lukkulegur að koma á þennan sterka völl gegn nýliðunum og ná þessum frábæra sigri.“

„Við nýttum færin og við fengum fleiri færi þrátt fyrir að við nýttum sennilega ekki nema 40% af færunum okkar en við vorum samt frábær,“ sagði Alfreð í viðtali eftir leik.

Leikurinn í kvöld fór mjög hægt af stað en fyrsta mark tilraunin kom ekki fyrr en á 22. mínútu. Alfreð finnst ekkert óvenjulegt að upphafsleikur tímabilsins fari svona hægt af stað.

„Við erum að spila fyrsta leikinn í langan tíma og það á grasi. Það er bara mjög eðlilegt að leikmenn voru lengi að reyna að finna taktinn og koma sér í gang. Það var svona vor bragur á þessu.“

4 leikmenn voru að spila sinn fyrsta leik í byrjunarliði Selfoss í kvöld. Alfreð er gífurlega ánægður með framlag þeirra allra og er spenntur fyrir framhaldinu.

„Brenna var mjög dugleg, Emma var mjög góð í vörninni, Núra var frábær á miðjunni og Caity gerði frábærlega í að tengja sendingarnar á milli. Þær allar henta okkar liði bara mjög vel,“ svaraði Alfreð aðspurður út í leikmennina fjóra.

Það er stutt á milli leikja í upphafi móts en Selfoss á langt ferðalag fyrir höndum sér og Alfreð varar sína leikmenn að fara ekki of hátt upp eftir sigurinn í kvöld.

„Þetta er dálítið mikið hraðmót núna í maí. Það er okkar þjálfarana að koma þeim niður á jörðina. Við þurfum að taka góða endurheimt og vera klár í gott ferðalag á Akureyri,“ sagði þjálfari Selfoss, Alfreð Elías Jóhannsson.

Gunnar: Þetta er það daprasta sem ég hef séð lengi

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var sár svekktur eftir 0-3 skellinn sem Keflavík fékk gegn Selfoss í kvöld.

„Gríðarleg vonbrigði. Frammistaðan í dag var bara alls ekki ásættanleg. Þetta er það daprasta sem ég hef séð lengi og ég er virkilega svekktur.“

„Við erum að fara á gras í fyrsta skipti og völlurinn er kannski ekki sá sléttasti. Kannski eðlilega þá eru leikmenn varkárir en svo er þetta líka fyrsti leikurinn í mótinu. Uppleggið var að fara hátt á þær og gerðum það á köflum,“ sagði Gunnar í viðtali eftir leik.

Þrír leikmenn voru að spila sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Keflavík í kvöld. Gunnar er ánægður með framlag þeirra þó það megi gera aðeins betur.

„Þær eru fínar og þær komu vel inn í þetta þrátt fyrir að hafa spilað mikið. Elín hefur spilað mikið á undirbúningstímabilinu en Tiffany og Abby voru að spila sinn annan leik fyrir félagið. Elín er búinn að vera flott með okkur í allan vetur en það vantar aðeins meiri reynslu á hinar stelpurnar hvernig við spilum leikinn. Það er allt annað að vera á æfingum og í leikjum.“

Keflavík var af lang flestum miðlum spáð falli úr Pepsi Max deildinni. Gunnar telur að liðið sitt eigi mikið inni miðað við leikinn í kvöld og telur Keflavík hafa fullt erindi í efstu deild.

„Spáin er nú bara svona til gamans gerð og það er eðlilegt að nýliðum sé spáð falli. Að sjálfsögðu ætlum við samt að afsanna það og sýna það að við eigum erindi í þessari deild, þrátt fyrir að frammistaðan í dag hafi ekki sýnt það. Við teljum okkur eiga mikið inni. Eins og allir segja þá eru Valur og Breiðablik sem bera höfuð og herðar yfir önnur lið en öll önnur lið geta unnið hvort annað,“ svaraði Gunnar aðspurður út í spána.

Næsti leikur Keflavíkur er gegn Stjörnunni og Gunnar telur að liðið sitt þurfi að fara yfir ýmis atriði fyrir þann leik.

„Við þurfum að stilla okkur saman og koma inn í leikinn með meiri fókus og spila okkar leik. Sá leikur er á gervigrasi og við erum vanari því eftir veturinn. Við þurfum að skerpa á ýmsum atriðum fyrir þann leik,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira