Erlent

Prins sakaður um að hafa banað „stærsta birni Rúmeníu“

Atli Ísleifsson skrifar
Björninn Artúr var sautján ára og hefur verið talinn stærsti björn Rúmeníu. Myndin er frá 2019.
Björninn Artúr var sautján ára og hefur verið talinn stærsti björn Rúmeníu. Myndin er frá 2019. AP

Umhverfisverndarsamtök í Rúmeníu hafa sakað Emanuel, prins í Liechtenstein, um að hafa skotið björninn Artúr á verndarsvæði í Karpatafjöllum. Artúr er sagður hafa verið „stærsti björn Rúmeníu“, en bann ríkir við minjaveiðum á stærri rándýrum í landinu.

Rúmensku umhverfisverndarsamtökin Agent Green og austurrísku samtökin VGT saka prinsinn um að hafa skotið Artúr í mars síðastliðinn.

Segja þau að prinsinn, sem býr í Riegersburg í Austurríki, hafi fengið sérstakt leyfi frá rúmenska umhverfisráðuneytinu til að skjóta birnu sem hafi valdið sérstaklega miklum usla nærri búgörðum í Ojdula, norðaustur af borinni Brasov.

Prinsinn hafi hins vegar alls ekki skotið birnuna sem hafi verið til vandræða, heldur karldýr sem hafðist við í skóginum og er sagður hafa forðast það alla tíð að koma nálægt mannabyggðum.

Starfsmenn samtakanna hafi lengi fylgst með Artúri og lifnaðarháttum hans.

AP segir frá því að opinber skjöl sýni fram á að Emanúel prins hafi verið veitt fjögurra daga leyfi til bjarnaveiða í mars í Covasna-héraði og að 13. mars hafi hann fellt sautján ára skógarbjörn.

Gabriel Paun, forseti Agent Green, segir að Artúr hafi einmitt verið sautján ára og verið stærsti björn sem vitað var um í Rúmeníu og líklegast öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Prinsinn hefur ekki viljað tjá sig um málið, að því er segir í frétt AP.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×